Sjóðastýringarfyrirtækið VEX, sem var stofnað í fyrra og er stýrt af þeim Benedikt Ólafssyni og Trausta Jónssyni, hefur lokið fjármögnun á tíu milljarða króna framtakssjóði.

Talsverð umframeftirspurn reyndist vera frá fjárfestum en hluthafar sjóðsins, sem ber heitið VEX I, eru stærri stofnanafjárfestar, meðal annars tryggingafélagið VÍS og helstu lífeyrissjóðir landsins, og ýmsir einkafjárfestar, eins og Bjarni Ármannsson.

VEX mun fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum, sem eru að sækja nýtt hlutafé til vaxtar, auk stöndugra félaga þar sem tækifæri eru til umbóta og aukinnar virðissköpunar. Sjóðurinn áformar að fjárfesta í 4 til 8 fyrirtækjum og að eignarhaldstími í hverju félagi verði á bilinu 3 til 7 ár.

Benedikt og Trausti störfuðu áður saman að sérhæfðum fjárfestingum hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni. Benedikt starfaði síðast sem fjármálastjóri Skeljungs 2016 til 2019 en Trausti hætti hjá Stefni í fyrra.

„Við höfum í gegnum tíðina átt gott samstarf með flestum þeim fjárfestum sem nú koma að sjóðnum. Á grundvelli þess samstarfs stofnum við VEX I, þar sem markmiðið er að koma fjármagni í vinnu með ábyrgum og árangursríkum hætti,“ segir Benedikt.

Að mati Trausta er mikið af áhugaverðum tækifærum innan þess fjárfestamengis sem VEX I horfir til. „Við sjáum sérstaklega vöntun í að fjármagna vegferð vaxtarfyrirtækja, t.d. vöruþróun, bættum innviðum, skölun á rekstri og sókn á ný markaðsvæði.“