Framtakssjóðurinn VEX I hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé Opinna Kerfa. Seljendur eru sérhæfði lánasjóðurinn MF1, í rekstri Ísafold Capital Partners, auk félags í eigu Frosta Bergssonar, eins stofnenda Opinna Kerfa, ásamt minni hluthöfum. Þetta kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu.

MF1 átti 79 prósenta hlut í Opnum Kerfum og hefur verið aðaleigandi félagsins frá árinu 2019.

VEX I er tíu milljarða framtakssjóður í stýringu VEX sem er rekstraraðili sérhæfðra sjóða með áherslu á óskráðar fjárfestingar. VEX var stofnað fyrir ríflega ári af Trausta Jónssyni og Benedikt Ólafssyni en auk þess fjárfestu VÍS og Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, í VEX.

Benedikt og Trausti störfuðu áður saman að sérhæfðum fjárfestingum hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni. Benedikt starfaði síðast sem fjármálastjóri Skeljungs 2016 til 2019.

Félagið lauk fjármögnun á framtakssjóðnum VEX I síðastliðið vor. Fyrsta fjárfesting VEX I voru kaup á 40 prósenta hlut í AGR Dynamics í júní.

VEX I leggur áherslu á fjárfestingu í óskráðum fyrirtækjum sem eru að sækja nýtt hlutafé til vaxtar auk stöndugra rekstrarfyrirtækja þar sem sjóðurinn sér tækifæri.

Fram kom í Markðanum í maí að hluthafar Opinna Kerfa væru að undirbúa sölu á fyrirtækin og að fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka annist söluferlið.

Aðspurður hvers vegna MF1 kjósi að selja í Opnum kerfum eftir að hafa átt hlutinn í tæp tvö ár sagði Gísli Valur Guðjónsson, framkvæmdastjóri MF1, við Markaðinn að meginhlutverk sjóðsins væri að veita lán en ekki koma að félögum sem ráðandi hluthafi. Sjóðurinn hafi gripið til þess ráðs að fylgja lánveitingu eftir með því að ganga inn í hluthafahópinn, endurskipuleggja fjárhaginn og snúa rekstrinum við. Það hafi gengið eftir og því sé nú góður tími til að kanna sölu á eignarhlutnum. „Það er rökrétt að fá nýja eigendur að félaginu,“ sagði hann.