Veru­legur munur er á af­komu hótel­fyrir­tækja árið 2018 í Reykja­vík og á lands­byggðinni. Sam­kvæmt niður­stöðum nýrrar skýrslu sem KPMG vann fyrir Ferða­mála­stofu sýnir saman­burður við fyrri ár að af­koma hótela hefur farið lækkandi öll ár frá 2016, þá er bæði átt við Reykja­vík og á lands­byggðinni. Rekstur hótela á lands­byggðinni hefur versnað frá 2015 með einni undan­tekningu, 2016. Það ár var mjög gott ár í ferða­þjónustu þar sem ferða­mönnum sem komu til landsins fjölgaði um tæp 40% frá árinu á undan og gengi krónunnar hækkaði veru­lega gagn­vart helstu gjald­miðlum.

Fram kemur í niður­stöðum að saman­burður við árið á undan, 2017, leiði í ljós að rekstrar­hagnaður sem hlut­fall af teljum var nærri ó­breyttur í Reykja­vík, eða um 12,7 prósent, en lækkaði á bæði Suður­landi og á Suður­nesjum. Á Suður­landi lækkaði rekstrar­hagnaður úr 11,6 prósent í 8,8 prósent og á Suður­nesjum lækkaði það úr 11,3 prósent í 6,9 prósent.

Á Vestur­landi dró úr rekstrar­tapi á milli ára. Það fór úr því að vera 9,6 prósent á árinu 2017 í að vera 5,2 prósent fyrir árið 2018.

Á Norður­landi varð eitt­hvað tap, en breytingin er þó ekki mikil milli ára. Rekstrar­tap var 0,8 prósent á árinu 2017 en jókst í 1,5 prósent á árinu 2018.

Upp­lýsingar sem bárust frá hótel­fyrir­tækjum varða alls upplýsingar frá fyrir­tækjum sem sam­tals voru með 5.581 hótel­her­bergi í rekstri árið 2018. Tekjur þeirra námu alls 36,8 milljörðum króna á árinu. Hótel­her­bergi á landinu eru alls um tíu þúsund og þátt­taka því yfir 55% prósent ef mælt er í fjölda her­bergja.

Segir í skýrslunni að stærstu hótel­keðjur landsins hafi veitt upp­lýsingar auk ein­hver fjölda smærri hótela og gisti­staða. Það megi því gera áð fyrir því að niður­stöðurnar gefi á­kveðnar vís­bendingar um af­komu greinarinnar í heild sinni. Segir að þó beri að taka til­lit til þess að mis­góð þátt­taka var í könnunni eftir lands­hlutum og að það sé gott að hafa það í huga þegar niður­stöðurnar eru túlkaðar. Ekki fengust nægar upp­lýsingar um rekstur hótela á Austur­landi til að sýna þær sér­stak­lega og eru þær inni­faldar í tölum fyrir Norður­land. Sama á við um upp­lýsingar frá Vest­fjörðum og eru þær teknar með í tölum um Vestur­land

Laun hærra hlut­fall á landsbyggðinni

Hjá hótelum á lands­byggðinni eru laun, sem hlut­fall af tekjum, að jafnaði í hærra hlut­falli en í Reykja­vík. Á lands­byggðinni námu laun sem hlut­fall af tekjum alls 44,8 prósent hjá hótelum á lands­byggðinni 2018, en þetta hlut­fall var 36,3 prósent í Reykja­vík.

Þá segir einnig í niður­stöðum að veitinga­sala sé al­mennt hærra hlut­fall af tekjum hjá fyrir­tækjum úti á landi er í Reykja­vík. Það skýri að ein­hverju leyti hærri launa­kostnað.

Meðal­verð á her­bergi og her­bergja­nýting er lægri á lands­byggðinni en í Reykja­vík. Her­bergja­nýting jókst milli áranna 2015 og 2016 en var svipuð 2017 og 2016. Hún virðist hafa lækkað lítil­lega á árinu 2018 frá fyrra ári.

Her­bergja­nýting á Suður­nesjum var á bilinu 50-78 prósent. Á Suður­landi var hún 43-66 prósent. Her­bergja­nýting á Norður­landi var 43-62 prósent og á Vestur­landi var hún 45-56 prósent. Her­bergja­nýting var mun betri í Reykja­vík en úti á landi. Hún var ná­lægt því að vera 84 prósent að meðal­tali í Reykja­vík en innan við 60 prósent að meðal­tali úti á landi.

Von á upplýsingum um fleiri fyrirtæki

Könnunin var gerð í fram­haldi af út­tekt sem Ferða­mála­stofa fól KPMG að gera á rekstri fyrir­tækja á fyrri hluta ársins 2018. Niður­stöður þóttu á­huga­verðar og mikil um­ræða skapaðist um stöðu greinarinnar í kjöl­far birtingar hennar. Því var talin á­stæða til að endur­taka könnunina og fá fram upp­lýsingar um rekstur alls ársins 2018.

Beiðni um upp­lýsingar var send til fyrir­tækja í hótel­rekstri, bíla­leiga, hóp­ferða­fyrir­tækja, ferða­skrif­stofa og af­þreyingar­fyrir­tækja. Skil á gögnum voru best frá hótel­fyrir­tækjum og því var á­kveðið að vinna úr þeim helstu upp­lýsingar og birta nú. Síðar á árinu, þegar upp­lýsinga frá öðrum rekstrar­einingum hefur verið aflað, mun um­fjöllun um ferða­þjónustuna í heild verða birt. Um­fjöllun þessi inni­felur því að­eins upp­lýsingar um af­komu hótel­fyrir­tækja.

Skýrslan er að­gengi­leg hér í heild sinni.