Villa í innsendum gögnum til Seðlabanka Íslands leiddi til þess að ný útlán til heimila vegna húsnæðiskaupa, umfram uppgreiðslur, voru ofmetin um hátt í 90 milljarða króna frá árinu 2013. Útlánavöxtur síðustu mánaða hefur ekki verið jafn mikill og áður talið hefur verið hingað til.

„Vegna villu í innsendum gögnum reyndist nauðsynlegt að leiðrétta vantalin gögn um umframgreiðslur frá ágúst 2013 til september 2020,“ segir í skýringu á vef Seðlabanka Íslandi.

Munurinn frá árinu 2013 á nýju gögnunum og þeim gömlu nemur ríflega 88 milljörðum króna sem er þá ofmat á nýjum húsnæðislánum umfram uppgreiðslur. Á þessu ári nemur munurinn 25,6 milljörðum króna og á síðasta ári nam hann ríflega 30 milljörðum króna. Ef litið er aftur til ársbyrjunar 2017 nemur munurinn 75,4 milljörðum króna.

„Það er greinilegt að útlánavöxtur síðustu mánaða hefur verið mjög svipaður og hann var á undan COVID. Í prósentum er þetta sáralítil breyting. Fyrst og fremst er fólk að endurfjármagna lán úr verðtryggðu í óverðtryggt, og færa lánin frá lífeyrissjóðunum og Íbúðalánasjóði yfir til bankanna,“ segir Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Þá bendir hann á að leiðréttingin sem Seðlabankinn birti eigi bara við um tölur úr bankakerfinu. Það eigi eftir að birta nýjar tölur fyrir stöðu lána hjá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðunum og hugsanlegt sé að önnur samskonar leiðrétting verði birt, þ.e. að uppgreiðslur lána hafi verið vanmetnar.