Erlend kortavelta hefur dregist ört saman síðastliðnar vikur samkvæmt bráðabirgðatölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Föstudaginn 20. mars nam kortavelta erlendra ferðamanna 23 prósentum þess sem hún nam sama dag árið á undan.

Erlend kortavelta nam þann 1. mars 83 prósentum af því sem hún nam sama dag árið 2019 og hinn 12. mars nam hún 67 prósentum. Síðan þá hefur veltan dregist saman daglega.

Bráðabirgðatölur Rannsóknarsetursins sýna ekki skýrt innlenda kortaveltu Íslendinga en samkvæmt þeim jókst veltan um 23 prósent fyrstu vikuna í mars sé miðað við sama tíma í fyrra. Þann 12. og 13. mars var innlend velta meira en tvöfalt það sem hún var sömu daga á síðasta ári. Þessa tvo daga var fjallað um það í fjölmiðlum að fólk væri að hamstra mat vegna faraldursins og er það talið geta skekkt tölurnar.

Uppfærðar tölur vegna marsmánaðar eru væntanlegar í næstu viku.