Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir það geta komið til greina að sveiflujöfnunaraukinn, sem leggst ofan á eiginfjárkröfur bankanna, verði lækkaður verulega. Nýskipuð fjármálastöðugleikanefnd muni taka það til skoðunar þegar hún komi saman síðar í mánuðinum.

Í viðtali við Markaðinn bendir Ásgeir á að sveiflujöfnunaraukinn – sem nemur nú tveimur prósentum eftir að hafa verið hækkaður um 0,25 prósentustig í byrjun síðasta mánaðar – sé hugsaður þannig að bankarnir hafi borð fyrir báru til þess að bregðast við afskriftum á útlánasafni sínu í niðursveiflu.

„Hann er því ætlaður til þess að mæta svona aðstæðum,“ segir hann.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands flýtti vaxtaákvörðun sinni um eina viku og ákvað í gær að lækka vexti bankans um hálft prósentustig. Meginvextir bankans verða því 2,25 prósent en þeir hafa lækkað um 2,25 prósentustig frá því í maí í fyrra. Um leið var meðaltalsbindiskylda bankanna lækkuð úr einu prósenti í núll prósent.

„Með þessum aðgerðum er slakað nokkuð á taumhaldi peningastefnunnar í ljósi versnandi efnahagshorfa í kjölfar aukinnar útbreiðslu COVID-19,“ sagði í yfirlýsingu nefndarinnar.

Birgir Haraldsson, sérfræðingur hjá Akta sjóðum, segir Seðlabankann hafa tekið góð skref með aðgerðum sínum og skilaboðum í gær. Fastlega megi búast við frekari vaxtalækkunum.

„Það var góð ákvörðun hjá bankanum að bíða ekki með fundinn þar til í næstu viku og er það í samræmi við það sem helstu seðlabankar heims hafa verið að gera að undanförnu. Óvissan hefði orðið of mikil ef bankinn hefði beðið í eina viku í viðbót,“ segir hann í samtali við Markaðinn.

Fjárfestar tóku vel í aðgerðir Seðlabankans en til marks um það hækkaði úrvalsvísitala Kauphallarinnar um 2,5 prósent í viðskiptum gærdagsins á hlutabréfamarkaði og ávöxtunarkrafa á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum hríðféll, um allt að tuttugu punkta.

Birgir segir aðgerðirnar góðar og tóninn á kynningarfundi seðlabankastjóra hafa verið betri en á síðustu fundum.

„Bankinn er raunsær og viðurkennir að óvissan er mikil og að fyrri spár eru úreltar. Það þýðir ekkert annað en að tala opinskátt um óvissuna á meðan hún er eins mikil og raun ber vitni,“ nefnir hann.

Birgir Haraldsson, sérfræðingur hjá Akta sjóðum.

Aðspurður um hvort til greina komi að Seðlabankinn beiti efnahagsreikningi sínum með því að kaupa sértryggð skuldabréf fyrirtækja á markaði í því augnamiði að lækka langtímavexti og auka lausafé í umferð segist Ásgeir ekki útiloka neitt.

„Þetta er eitthvað sem við munum skoða. Seðlabankar úti í heimi fóru hins vegar í slíkar magnbundnar aðgerðir þegar vextir þeirra voru komnir niður í núll og þeir þurfa að beita öðrum tækjum en vöxtunum til að örva hagkerfið. Við erum enn með okkar vexti yfir tvö prósent,“ nefnir hann.

Þá bendir Ásgeir á að ef bankana skorti lausafé séu einnig aðrir möguleikar fyrir hendi, eins og endurhverf viðskipti við Seðlabankann, en reglur um þau voru rýmkaðar í fyrra þegar sértryggð skuldabréf bankanna voru samþykkt sem hæf til tryggingar í slíkum viðskiptum við bankann.

Vill ekki að forðinn verði minni

Ásgeir nefndi á fundinum að Seðlabankinn væri vel í stakk búinn til þess að mæta ýktum sveiflum á gengi krónunnar, meðal annars vegna mikils viðskiptaafgangs og um 800 milljarða króna gjaldeyrisforða.

Aðspurður segir Ásgeir forðann vissulega nokkuð dýran, enda þótt kostnaðurinn hafi farið minnkandi með lækkandi vaxtamun. „Ég myndi ekki vilja sjá gjaldeyrisforðann minni,“ nefnir hann þó og bendir á að hann gefi fjármálakerfinu ákveðinn trúverðugleika.

Birgir segir að svo virðist sem Seðlabankinn horfi mikið til þess hve slæmur annar ársfjórðungur verði á meðan einhverjar vonir séu bundnar við að ástandið skáni á þriðja ársfjórðungi.

„Hættan er hins vegar sú,“ útskýrir hann, „að þriðji ársfjórðungur verði einnig mjög erfiður. Það er ekki endilega gefið að þótt veiran myndi gangi hraðar yfir en búist er við að hagkerfið taki undir eins við sér. Sem dæmi er erfitt að sjá fyrir sér að áhugi á ferðalögum til Íslands aukist endilega til muna strax í sumar. Það væri óskandi en ég er smá hræddur um að Seðlabankinn sé mögulega að vanmeta áhættuna fyrir síðsumarið.“

Aðspurður telur Birgir miklar líkur á því að frekari aðgerða, svo sem meiri vaxtalækkana, sé að vænta. Jafnframt sé ljóst að bankinn sé ekki bundinn af áður útgefnu dagatali yfir vaxtaákvörðunardaga. Hann muni boða til funda og taka ákvarðanir þegar hann telur þess þörf.

„Seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði til dæmis vexti um fimmtíu punkta á neyðarfundi í síðustu viku og búist er við 75 punkta lækkun í viðbót á markaðinum þar í næstu viku. Það er mikil pressa á seðlabönkum að bregðast hratt við stöðu mála. Það er allt opið,“ segir Birgir.

Greinendur Danske Bank mæla ekki lengur með yfirvigt í skuldabréfum bankanna þriggja, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans.

Danske Bank segir íslensku bankana geta orðið fyrir höggi


Ef ferðaþjónustan hér á landi verður fyrir áfalli til lengri tíma vegna útbreiðslu kórónaveirunnar gæti það reynst hagkerfinu og stóru viðskiptabönkunum þremur þungt í skauti. Þetta er mat greinenda Danske Bank sem mæla ekki lengur með yfirvigt í skuldabréfum bankanna þriggja, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans.

Í greiningu Danske Bank, sem gefin var út í gær, er bent á að samdráttur í ferðaþjónustu geti haft veruleg áhrif á íslenska hagkerfið og þar á meðal á stöðu bankanna.

„Við leggjum áherslu á að allir þrír bankarnir hafa sterka eiginfjárauka, sem geta mætt mögulegu tapi, og grunnsviðsmynd okkar er sú að hægagangurinn verði tímabundinn,“ segir í greiningu danska bankans.

Að mati greinenda Danske Bank munu áhrif kórónaveirunnar á íslenskt hagkerfi ráðast af tveimur þáttum. Annars vegar hvert umfang ferðatakmarkana og afbókana í flug verður og hins vegar hvenær eftirspurn eftir ferðalögum í heiminum taki við sér á nýjan leik.

Sérfræðingar Danske Bank benda á að í samanburði við evrópska seðlabanka hafi Seðlabanki Íslands meira svigrúm til að styðja við hagkerfið, enda séu stýrivextir hér hærri en annars staðar. Þá sé skuldastaða íslenska ríkisins heilbrigð og veiti stjórnvöldum rými til að bregðast við ef þess gerist þörf.

Hins vegar geti slík hagstjórnarviðbrögð aðeins haft takmörkuð áhrif, sér í lagi til skemmri tíma, til þess að bregðast við minni ytri eftirspurn eftir vörum og þjónustu hér á landi.