Lækkun úrvalsvísitölu Kauphallarinnar var nærri átján prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins og hefur hún ekki lækkað jafn mikið á einum ársfjórðungi í ellefu ár. Mikil óvissa um áhrif kórónaveirunnar á heimshagkerfið skekur áfram hlutabréfamarkaði heimsins.

Arnar Ingi Jónsson, greinandi í hagfræðideild Landsbankans, segir allar yfirlýsingar um að botninum sé náð eða ekki náð „fullkomlega ótímabærar“ á þessari stundu. Óvissan sé enn það mikil.

Úrvalsvísitalan stóð í 1.748 stigum þegar markaðir lokuðu þann 31. mars síðastliðinn og hafði þá fallið um 17,6 prósent frá því í byrjun ársins. Er það mesta fjórðungslækkun vísitölunnar frá því á fyrsta fjórðungi ársins 2009 – í miðri fjármálakreppu – þegar hún féll um allt að 36 prósent.

Lækkun íslenska hlutabréfamarkaðarins á fyrstu þremur mánuðum ársins var heldur minni en á stærstu mörkuðum heims en sem dæmi fór bandaríska hlutabréfavísitalan S&P 500 niður um tuttugu prósent á tímabilinu, hin breska FTSE 100 um 25 prósent og evrópska vísitalan Stoxx 600 um tæplega 23 prósent.

Verðfallið á bandarískum hlutabréfamarkaði var það mesta frá því í fjármálakreppunni á haustmánuðum ársins 2008 á meðan breskur hlutabréfamarkaður hefur ekki lækkað eins mikið á einum fjórðungi frá árinu 1987.

„Lækkunarhrinan hefur verið óvenjuleg, ekki vegna lækkunarinnar sem slíkrar heldur fremur vegna hraða hennar og sveiflnanna,“ segir Peter Oppenheimer, sérfræðingur hjá Goldman Sachs, í samtali við Financial Times.

Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um tæp átján prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins. Er það mesta lækkun á einum ársfjórðungi síðan á fyrsta fjórðungi ársins 2009.

Því til stuðnings bendir hann á að bandaríski hlutabréfamarkaðurinn hafi í lok febrúar og byrjun mars – í kjölfar þess að kórónaveiran fór að breiðast hratt út utan Kína – lækkað um alls tuttugu prósent á aðeins sextán dögum. Það sé hraðasta lækkun í sögu markaðarins.

Gengi bréfa í Icelandair lækkað um meira en helming

Frá því að íslenski hlutabréfamarkaðurinn tók dýfu í seinni hluta febrúarmánaðar hefur úrvalsvísitalan lækkað um 19,5 prósent. Á þeim tíma hefur gengi hlutabréfa í Icelandair Group, sem hefur orðið harkalega fyrir barðinu á ferðatakmörkunum sem stjórnvöld víða um heim hafa sett til þess að hefta útbreiðslu veirunnar, hrunið um rúm 56 prósent á meðan hlutabréf í Arion banka hafa lækkað um 37 prósent í verði og hlutabréfaverð í Reitum fallið um 31 prósent. Gengi hlutabréfa í öðrum félögum hefur lækkað minna.

Á meðan úrvalsvísitalan hefur lækkað um nærri átján prósent frá áramótum hefur skuldabréfavísitala GAMMA hækkað um 5,4 prósent.

„Það eru miklir óvissutímar fram undan,“ nefnir Arnar Ingi, „og ómögulegt að segja til um hvenær þeim lýkur. Hlutabréfamarkaðir eiga í eðli sínu að vera framsýnir en til þess að þeir geti það verða þeir að hafa upplýsingar. Og þær eru því miður ekki fyrir hendi.“

Arnar Ingi Jónsson, greinandi í hagfræðideild Landsbankans.

Má búast við áframhaldandi sveiflum

Þrátt fyrir miklar hækkanir á hlutabréfamörkuðum heimsins, sér í lagi í Bandaríkjunum, í síðustu viku segjast fjárfestar og greinendur sem Wall Street Journal ræddi við tregir til þess að lýsa því yfir að botninum hafi verið náð.

„Það er enn mjög mikil óvissa fyrir hendi. Verður efnahagsbatinn „v-laga“ eða mun niðursveiflan vara lengur en við höfum haldið?“ spyr Shawn Snyder, sérfræðingur hjá Citi-bankanum.

Til marks um óvissuna bendir Arnar Ingi meðal annars á að ekki sé enn komin endanleg mynd á hve stórir björgunarpakkar stjórnvalda, bæði hér heima, í Bandaríkjunum og Evrópu, muni verða.

„Þær aðgerðir sem þegar hafa verið kynntar lofa góðu en síðan á eftir að koma í ljós hvort þær muni reynast nægilegar. Aðalmálið er að stjórnvöld og Seðlabankinn hafa lýst yfir vilja til þess að styðja við og létta undir með fyrirtækjum landsins á þessum óvissutímum. Það eru mikilvæg skilaboð.“

Aðspurður segir Arnar Ingi að búast megi við áframhaldandi sveiflum á milli daga á hlutabréfamarkaðinum og það í báðar áttir.

„Markaðurinn mun að sjálfsögðu sveiflast áfram með nýjustu fregnum eins og hann hefur gert síðustu vikur. Allar verulegar breytingar og nýjar fregnir, hvort sem þær varða stjórnvöld, veirufaraldurinn eða félögin sjálf, munu líkast til hafa mikil áhrif á markaðinn,“ segir Arnar Ingi.