Dekksta sviðsmynd Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman um 4,8 prósent í ár vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Er þá má meðal annars miðað við að ferðamönnum fækki um 55 prósent á milli ára sem samsvarar um 21 prósents samdrætti í heildarútflutningi.

Til samanburðar gerði síðasta þjóðhagsspá Seðlabankans ráð fyrir að hagvöxtur yrði 0,8 prósent í ár.

Þórarinn G. Pétursson, framkvæmdastjóri sviðs hagfræði og peningastefnu Seðlabankans, kynnti á fundi í Seðlabankanum í morgun tvær sviðsmyndir - mildari og dekkri - um áhrif kórónaveirunnar á íslenskt hagkerfi sem hefðu hvað helst verið til skoðunar innan bankans.

Hann tók sérstaklega fram að ekki væri um að ræða spá, heldur sviðsmyndir sem tækju ekki tillit til þeirra efnahagsaðgerða sem stjórnvöld og Seðlabankann hefðu þegar gripið til eða boðað. Stefnt væri að útgáfu hagspár í maímánuði.

Samkvæmt mildari sviðsmynd Seðlabankans - sem gerir meðal annars ráð fyrir 37 prósenta fækkun ferðamanna í ár - dregst landsframleiðsla saman um 2,4 prósent í ár.

Mildari sviðsmyndin gerir auk þess ráð fyrir að atvinnuleysi verði 5,7 prósent á þessu ári en í dekkri sviðsmyndinni er miðað við allt að 7,0 prósenta atvinnuleysi. Til samanburðar var gert ráð fyrir 4,2 prósenta atvinnuleysi í spá Seðlabankans frá því í byrjun febrúar síðastliðins.

Þórarinn nefndi á fundinum að báðar sviðsmyndir Seðlabankans miðuðust við að ferðamönnum myndi fækka um níutíu prósent á næstu mánuðum samanborið við sama tíma í fyrra. Munurinn á sviðsmyndunum fælist hins vegar í því hve lengi sú mikla fækkun myndi vara.

Hvað varðar möguleg áhrif kórónaveirunnar á einkaneyslu, þá gerir mildari sviðsmynd Seðlabankans ráð fyrir samdrætti upp á 1,1 prósent í ár en sú dekkri 3,8 prósenta samdrátt. Til samanburðar hljóðaði fyrri spá Seðlabankans upp á 2,4 prósenta vöxt í einkaneyslu á árinu.

Fram kom í máli Þórarins að horfur væru á minni verðbólgu þótt gengi krónunnar lækkaði. Í sviðsmyndum bankans er miðað við að verðbólga verði 1,4 til 1,5 prósent í ár, miðað við fyrra ár, en grunnspá bankans frá því í febrúar gerði ráð fyrir 1,9 prósenta verðbólgu.