Gagnaverið Verne Global á Reykjanesi horfir til þess að vaxa að jafnaði um 30 prósent á ári byggt á núverandi viðskiptavinum. Auk þess er stefnt að því að fá nýja viðskiptavini. Þetta segir Dominic Ward, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við Markaðinn. Frá ársbyrjun 2020 hefur Verne Global varið yfir tíu milljörðum króna í viðskiptum við íslensk fyrirtæki.

Fram hefur komið í Markaðnum að gagnaverið hafi á dögunum verið selt fyrir jafnvirði 40,5 milljarða króna og þar af hafi lífeyrissjóðir fengið um tíu milljarða fyrir tilstilli framtakssjóðsins SF VI sem Stefnir, sjóðastýring Arion banka, hefur umsjón með. Kaupandinn var innviðasjóðurinn Digital 9 Infra­structures sem stýrt er af Triple Point.

Ward segir aðspurður að stjórnendur innviðasjóðsins hafi fullan hug á og burði til að styðja við áframhaldandi vöxt Verne Global. Ward segir að Verne Global hafi verið selt vegna þess að það hafi fjölda stórfyrirtækja í viðskiptum á borð við BMW og Volkswagen sem hafi þörf fyrir mikla reiknigetu. Fyrirtæki þurfi að huga að umhverfinu en kolefnisspor íslenskra gagnavera sé 95 prósentum minna en gagnavera í flestum öðrum löndum í Vestur-Evrópu, nefna megi þýsk gagnaver sem dæmi. Litið til annarra Norðurlanda sé vert að nefna að kjarnorkuver framleiði helminginn af orkunni í Svíþjóð, orkuframleiðsla í Noregi sé 95 prósent endurnýjanleg en á Íslandi sé hlutfallið 100 prósent. „Þess vegna er Ísland afar spennandi,“ segir hann. Aðspurður segir Ward að langflest gagnaver í heiminum séu knúin með orku sem sé ekki endurnýjanleg.

Aðspurður hvers vegna Íslendingar ættu að taka gagnaversiðnaði fagnandi segir Ward að gagnaversiðnaður sé ein af þeim atvinnugreinum sem vaxi hvað hraðast. Á næstu áratugum muni stafrænir innviðir skipa æ stærri sess í hagkerfinu. Takist að byggja ofan á þá þjónustu sé hægt að leggja grunn að þróuðu hagkerfi sem hafi þörf fyrir vel menntað vinnuafl og ýmsar aðrar atvinnugreinar muni spretta upp í kjölfarið.

Dominic Ward, forstjóri Verne Global.
Mynd/Aðsend

Verne Global hefur einungis hýst þá sem grafa eftir rafmyntum í litlum mæli. Samhliða því að unnið sé að því að stækka gagnaverið umtalsvert er verið að breyta um helmingi af því plássi sem áður fór undir rafmyntir í rými til að hýsa tölvubúnað fyrir stórfyrirtæki. Á næsta ári verður ekkert rými helgað rafmyntum.

Ward segir að Ísland hafi tækifæri til að skapa sér sérstöðu á vettvangi rekstrar gagnavera. Kaup Digital 9 Infrastructures sé staðfesting á því. Ísland búi yfir endurnýjanlega orku sem sé hægt að reiða sig á en gagnaver eins og álver þurfi að vera í gangi allan sólarhringinn. Auk þess henti loftslagið vel til að kæla tækjabúnað og í því felist sparnaður. Tæknifólk og aðrir sem komi að málum sé enn fremur afar fært á sínu sviði. „Viðskiptavinir hrósa okkur fyrir það,“ segir Ward.

Hann segir að sérstaða Verne Global felist auk þess í langtíma samningum við Landsvirkjun um kaup á raforku. Sá fyrirsjáanleiki sé mikil lyftistöng fyrir erlenda fjárfestingu hérlendis því hann geri viðskiptavinum kleift að ráðast í umtalsverðar fjárfestingar í tengslum við gagnaverið hér á landi. Væri þessi vissa ekki til staðar myndu viðskiptavinir halda að sér höndum í meira mæli.

Fram hefur komið í Markaðnum að erlend gagnaver eiga erfitt með að bjóða viðskiptavinum langtímasamninga um verð því annars staðar í heiminum sveiflist verð á rafmagni eftir aðstæðum á markaði.

Vestast af Norðurlöndunum með nýjum streng

Fyrirhugaður fjarskiptasæstrengur á milli Íslands og Írlands sem á að komast í gagnið við árslok 2020 mun gera það að verkum að fleiri viðskiptavinir horfi til þess að hýsa gögnin sín á Íslandi. Ward segir að hann liðki fyrir samtölum við hugsanlega viðskiptavina. Strengurinn geri það að verkum að Ísland verði nær Írlandi þar sem stærsti klasi af gagnaverum í Evrópu sé. „Ísland verður það gagnaver sem er vestast af gagnaverunum á Norðurlöndunum. Öll hin verða austar. Strengurinn gerir það að verkum að sambandið verður hraðara frá Bandaríkjunum til Íslands en hinna Norðurlandanna,“ segir hann.

Íslandsstofa vinnur að herferð

Íslandsstofa er að leggja drög að markaðsherferð til að laða gagnaver og erlenda viðskiptavini gagnavera til Íslands. „Innviðir á borð við gagnaver eru hluti af fjórðu iðnbyltingunni,“ segir Einar Hansen Tómasson, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu.

Einar Hansen Tómasson, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu.
Mynd/Aðsend

Um er að ræða samstarfsverkefni Íslandsstofu, Landsvirkjunar, Farice, Orku náttúrunnar og Samtaka gagnavera. „Við verðum að vinna saman sem ein heild,“ segir Einar í samtali við Markaðinn.

Horft er til þess að markaðsherferðin hefjist samhliða stórri ráðstefnu sem haldin verður um miðjan nóvember í St. Louis í Bandaríkjunum. Hún ber nafnið SC21 og hverfist um tölvur með mikla reiknigetu. Samhliða mun almannatengslastofa dreifa „grænum sögum“. Einar bendir á að gagnaverin séu knúin með grænni orku og noti kalt loftslag til að kæla tölvubúnaðinn í stað raforku.

Unnið er að því að leggja fjarskipta-sæstreng frá Íslandi til Írlands en þar er fjöldi gagnavera. Íslandsstofa fékk PwC í Belgíu til að kortleggja írska markaðinn til að finna tækifærin sem felast í nýjum gagnastreng til að geta hafist handa við að markaðssetja gagnaver á Íslandi þegar strengurinn er kominn í gagnið.

„Við verðum tilbúin,“ segir Einar og nefnir að fyrirtæki á Írlandi geti þá flutt til Íslands þá starfsemi sem krefst mikillar reiknigetu.