Verne Global, sem rekur gagnaver á Ásbrú í Reykjanesbæ, hefur lokið við hlutafjáraukningu fyrir um tíu milljónir dala, jafnvirði tæplega 1,4 milljarða króna, auk þess sem félagið hefur tryggt sér yfir fjögurra milljarða króna lán frá Arion banka. Er fjármögnuninni ætlað að auka afkastagetu gagnaversins um liðlega fjögur megavött, að sögn forsvarsmanna félagsins.

„Þetta fjármagn mun hjálpa okkur að stækka starfsemi okkar á Íslandi til þess að mæta sterkri eftirspurn frá bæði núverandi og mögulegum viðskiptavinum eftir ofurtölvulausnum,“ segir Dominic Ward, forstjóri Verne Global.

Samkvæmt gögnum sem hefur verið skilað inn til bresku fyrirtækjaskrárinnar, tóku stærstu hluthafar Verne Global, þar á meðal félög á vegum Novators og framtakssjóður í stýringu Stefnis, þátt í hlutafjáraukningunni.

Þannig lögðu félög í stýringu Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, gagnaverinu til um 2,6 milljónir dala, jafnvirði um 360 milljóna króna, á meðan sjóðurinn SF VI, sem er að mestu fjármagnaður af innlendum lífeyrissjóðum, fjárfesti í því fyrir um 2,9 milljónir dala, eða sem jafngildir um 400 milljónum króna.

Breski góðgerðarsjóðurinn Wellcome Trust, stærsti hluthafi Verne Global með nærri 30 prósenta hlut, lagði félaginu til 3,2 milljónir dala og þá nam framlag bandaríska fjárfestingarsjóðsins General Catalyst Partners um 1,3 milljónum dala.

Novator hafði sem kunnugt er forystu um stofnun Verne Global árið 2007 ásamt General Catalyst. Wellcome Trust, sem er meðal annars einn stærsti bakhjarl rannsókna í líf- og læknisfræði í heiminum, fjárfesti í gagnaverinu árið 2010 og þá kom fyrrnefndur sjóður í rekstri Stefnis, sjóðastýringarfélags Arion banka, inn í hluthafahópinn með um fjórðungshlut snemma árs 2015.

Fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar hafði frumkvæði að stofnun Verne Global árið 2007.
Fréttablaðið/GVA

Fram kemur í fyrrnefndum gögnum úr bresku fyrirtækjaskránni að Verne Global og Arion banki hafi samið um miðjan síðasta mánuð um annars vegar framkvæmdalán í evrum og dölum fyrir jafnvirði um 2,3 milljarða króna og hins vegar lán til endurfjármögnunar á eldri lánum fyrir allt að 1,9 milljarða króna.

Eru lánin tryggð með veði í öllu hlutafé gagnaversfélagsins.

Bankinn hefur áður komið að fjármögnun Verne Global, en hann endurfjármagnaði sem dæmi félagið að fullu árið 2014, tveimur árum eftir að starfsemi gagnaversins hófst, auk þess sem hann fjármagnaði á sama ári frekari stækkun þess.

Tap hefur verið á rekstri gagnaversins frá því að það var opnað árið 2012. Sem dæmi nam tap Verne Holdings, móðurfélags Verne Global, um 5,4 milljónum dala, jafnvirði um 750 milljóna króna, árið 2018 og nærri 10,2 milljónum dala árið 2017.

Tekjur félagsins námu samanlagt 17,5 milljónum dala, um 2,4 milljörðum króna árið 2018, borið saman við 12,3 milljónir dala árið áður.

Móðurfélagið átti eignir upp á alls 98,5 milljónir dala, sem jafngildir um 13,7 milljörðum króna, í lok árs 2018, en á sama tíma var eigið fé þess 72,7 milljónir dala og eiginfjárhlutfallið því um 74 prósent.

Dominic Ward, sem hefur starfað sem fjármálastjóri Verne Global, tók við forstjórastarfi gagnaversfélagsins fyrr á árinu af Jeff Monroe, sem hafði gegnt starfinu í meira en tíu ár. Áður starfaði Dominic fyrir fjárfestingararm Wellcome Trust þar sem hann leiddi meðal annars fjárfestingu sjóðsins í Verne Global á árunum 2010 og 2011.