Íslenska tryggingatæknifélagið Verna hefur verið tilnefnt sem eitt af fimm bestu InsurTech fyrirtækjum á Norðurlöndunum fyrir Insurance Innovators Nordics ráðstefnuna sem haldin verður í Kaupmannahöfn í næstu viku.
Markmið Verna hefur verið að gera tryggingar einfaldari, gagnsærri og hagkvæmari fyrir þá sem taka minni áhættu í umferðinni. Fyrirtækið notast við nýja tækni og gögn í gegnum smáforrit til að meta áhættu með nýstárlegum hætti og sjálfvirknivæða alla ferla í tryggingarekstri.
Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Verna, segist stoltur af því að félagið hafi verið valið sem eitt af bestu tryggingatæknifélögum á Norðurlöndum.
„Þessi viðurkenning er til marks um dugnað teymisins okkar og hún hvetur okkur til að halda áfram á þeirri vegferð okkar að vera breytingaafl í tryggingageiranum með nýsköpun og þróun tæknilausna. Við teljum að tryggingar ættu að vera gagnsærri og sanngjarnari en þær eru í dag. Frábærar viðtökur bílatryggingar Verna sýna að neytendur kalla eftir breytingum á þessum markaði” sagði Friðrik.