Helgi Vífill Júlíusson
helgivifill@frettabladid.is
Miðvikudagur 21. apríl 2021
07.00 GMT

Byggingargeirinn hér á landi sveiflast á tvöföldum eða þreföldum hraða á við hagsveifluna. Þrátt fyrir mikinn samdrátt í efnahagslífinu á undanförnum þrettán mánuðum er íbúðamarkaður í meira jafnvægi en oft áður. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins, móðurfélags BM Vallár, Sementsverksmiðjunnar og Björgunar.

„Sjaldan hefur byggingargeirinn lent jafn mjúklega í niðursveiflu og nú,“ segir hann. Hagkerfið dróst saman um tæp sjö prósent á árinu 2020 sem rekja má til COVID-19 heimsfaraldursins en Seðlabankinn hefur sagt að byggingargeirinn hafi ekki orðið fyrir miklum skakkaföllum og fjöldi starfa haldist nokkuð stöðugur síðustu misseri.

Bremsuförin ná aftur til 2018

„Mikið var byggt af íbúðum á árinu 2018 og inn á árið 2019 en verktakar drógu úr framkvæmdum þegar þeir tóku að merkja að hagkerfið væri farið að kólna síðla árs 2018. Það má því segja að bremsuförin nái aftur til ársloka 2018 en nú sjást skýr merki um vöxt á nýjan leik,“ segir Þorsteinn.

„Mikið var byggt af íbúðum á árinu 2018 og inn á árið 2019 en verktakar drógu úr framkvæmdum þegar þeir tóku að merkja að hagkerfið væri farið að kólna síðla árs 2018,“ segir Þorsteinn.
Fréttablaðið/Anton Brink

Af hverju segir þú að byggingarmarkaðurinn sé í meira jafnvægi en oft áður?

„Horft til fjölda íbúða í byggingu miðað við lýðfræðilega þróun hefur jafnvægið verið óvenju gott undanfarin ár. Það hafa verið framleiddar um tvö þúsund íbúðir að meðaltali á ári undangengin ár á höfuðborgarsvæðinu sem er í samræmi við árlega þörf. Nú eru um 4.600 íbúðir í byggingu eða sem nemur liðlega tveggja ára þörf.

Það er ekkert launungarmál að það er mikil spenna á markaðnum. Hún helgast af vaxtalækkun Seðlabankans og eftirspurnarhliðrun. Það tekur tíma að aðlagast breyttum aðstæðum. Við þær aðstæður þurfa verktakar að hafa varann á. Sú hliðrun á eftirspurn þarf ekki að tákna að neyslumynstrið hafi breyst varanlega. Það má færa rök fyrir því að ungt fólk komi fyrr inn á íbúðamarkaðinn en ella í ljósi vaxtalækkana en til lengdar ræður fólksfjöldaþróunin sem hefur lítið breyst.

Aukin sókn fyrstu kaupenda hefur leitt til þess að leiguverð hefur farið lækkandi. Það þarf þó að hafa í huga að stýrivextir verða ekki 0,75 prósent til lengdar. Verðbólga er rúmlega fjögur prósent. Í því ljósi mun Seðlabankinn ekki halda vöxtum svo lágum lengur en nauðsyn krefur vegna heimsfaraldursins. Þegar hagkerfið fer að sýna merki um vöxt á nýjan leik er viðbúið að stýrivextir hækki þótt vonandi verði vaxatstigið lægra en verið hefur hér á landi. Fólk ætti að varast of mikla skuldsetningu við íbúðakaup við þessar kringumstæður.

Að þessu sögðu er ánægjulegt að sjá – en ég kom að þeirri vinnu þegar ég var framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og þann stutta tíma sem ég var félagsmálaráðherra – að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga í betra samstarfi um skipulag og lóðaframboð en áður. Í skipulagsáætlun kemur fram hvert framboðið þeirra á lóðum er til ársins 2024. Ég vonast til að það dragi úr sveiflum.“

Rótin er vinnumarkaðurinn

Hvað er hægt að gera til draga úr sveiflum í byggingargeiranum?

„Grunnvandinn er sá að hagkerfið er of sveiflukennt. Jafn miklar sveiflur þekkjast ekki á öðrum Vesturlöndum. Gjaldmiðillinn ýkir sveiflurnar, krónan hefur tilhneigingu til að styrkjast um of í uppsveiflu og falla hratt í niðursveiflu, en rót vandans liggur á vinnumarkaði. Frá þjóðarsáttinni fyrir um þremur áratugum hafa laun hérlendis hækkað ríflega tvöfalt á við hin Norðurlöndin og verðbólgan sömuleiðis. Slík þróun leiðir annað hvort til mikils atvinnuleysis eða falls krónunnar.

Vandinn er að verkalýðshreyfingin – og sér í lagi ný forysta í verkalýðshreyfingunni – hafnar efnahagslegum veruleika. Það er eins og að hafna þyngdarlögmálinu í raunvísindum. Launahækkanir umfram framleiðniaukningu leiða til verðbólgu. Sé verðbólga viðvarandi meiri en í nágrannalöndunum hverfur samkeppnishæfni atvinnulífsins og atvinnuleysi vex. Samkeppnishæfnin verður þá aðeins endurreist með gengisfellingu. Þetta höfum við reynt ótal sinnum.

Eftir bankahrunið mátti draga þann lærdóm að þrír armar hagstjórnar höfðu ekki virkað sem skyldi. Það var of mikill útgjaldavöxtur á góðæristímum. Vinnumarkaðurinn vann gegn hagstjórninni því launahækkanir voru langt umfram framleiðaukningu. Þess vegna sat Seðlabankinn uppi með þann Svarta-Pétur að reyna að halda verðbólgu í skefjum með því að beita stýrivöxtum. Það gekk ekki vel.

Litið til baka, röskum áratug eftir hrun, erum við að gera sömu mistök: Ríkisútgjöld hafa þanist út í góðæri og launahækkanir hafa verið með svipuðum hætti og þær voru áratuginn í aðdraganda bankahruns. Við virðumst því lítið hafa lært.

Tvennt hefur þó breytt miklu frá þeim tíma. Annars vegar nálgast Seðlabankinn hlutverk sitt með öðrum hætti því hann beitir fleiri tækjum til að stemma stigu við verðbólgu en stýrivöxtum. Hins vegar skipti gjaldeyrisöflun ferðaþjónustu sköpum. Ferðaþjónustan dró hagkerfið upp úr kreppu eftir bankahrunið og skaut nýjum fæti undir gjaldeyrissköpun fyrir þjóðarbúið. Sú gjaldeyrissköpun leiddi til jákvæðs viðskiptajöfnuðar sem gerði það að verkum að svigrúm skapaðist fyrir launahækkanir. Aftur á móti reyndust þær hækkanir ferðaþjónustunni þungbærar. Það má spyrja sig hve sjálfbær viðskiptajöfnuðurinn er ef atvinnugreinin, sem á mestan þátt í að skapa hann, er sjálf rekin með tapi. Það er óljóst hver samkeppnishæfni hennar er nú enda hefur ekki reynt á hana í þrettán mánuði vegna COVID-19.“

„Það má búast við því að minni hagkerfi sveiflist meira en þau stærri. Hins vegar er hagkerfið okkar orðið mun betur í stakk búið til að mæta einstaka sveiflum enda stoðirnar orðnar fleiri,“ segir Þorsteinn.
Fréttablaðið/Ernir

Launaskrið vegur að krónu

Fyrst þú nefnir gjaldmiðilinn. Ef við værum með evru hefði verkalýðshreyfingin orðið að horfa upp á aukið atvinnuleysi samhliða hratt hækkandi launum. Hefði það komið henni betur í skilning um samhengi hlutanna?

„Vandinn er alltaf sá sami: Þegar það er ekki sameiginleg sýn á vandann verða ekki stigin skref til að leysa hann. Verkalýðshreyfingin hafði frumkvæði að því að hefja svokallaða SALEK-vinnu til að leiða fram sambærilegt vinnumarkaðslíkan og á hinum Norðurlöndunum. Það gekk ekki eftir.

Hvert Norðurlandanna nálgast viðfangsefnið á ólíkan máta. Finnar og Danir með fastgengi og Norðmenn og Svíar með fljótandi. Danir tóku upp fastgengisstefnu árið 1985 og festu dönsku krónuna við þýskt mark og síðar evru. Það er skýrt af hálfu danska seðlabankans að ef launahækkanir fara úr böndunum verður stuðningi við fastgengisstefnuna hætt. Fastgengisstefnan byggir því á ábyrgð vinnumarkaðar.

Danir tóku vinnumarkaðslíkan sitt í gegn þegar fastgengisstefnu var komið á fót. Hið sama gerðist í Noregi og Svíþjóð í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar og Þjóðarsáttin okkar var tilraun til þess sama sem við höfum þó aldrei lokið. Gengisstöðugleiki þessara landa hvílir á ábyrgum vinnumarkaði.


„Það er skýrt af hálfu danska seðlabankans að ef launahækkanir fara úr böndunum verður stuðningi við fastgengisstefnuna hætt.“


Hér á landi var tekin upp fastgengisstefna árið 1989 sem upptaktur að þjóðarsáttinni. Fastgengisstefnan var varin af vinnumarkaðnum á fyrri hluta tíunda áratugarins. Launahækkanir langt umfram svigrúm á seinni hluta hans grófu undan fastgenginu og verðbólgu­markmið var tekið upp. Á tíma verðbólgumarkmiðs hefur meðalverðbólga verið hátt yfir markmiði og gengið haldið áfram að veikjast svo enn tekst okkur ekki að finna stöðugleika. Ísland verður að hafa krónu á meðan vinnumarkaðurinn hagar sér með jafn óábyrgum hætti og raun ber vitni. Gengisstöðugleiki næst aðeins í gegnum breytt vinnubrögð á vinnumarkaði.

Það má búast við því að minni hagkerfi sveiflist meira en þau stærri. Hins vegar er hagkerfið okkar orðið mun betur í stakk búið til að mæta einstaka sveiflum enda stoðirnar orðnar fleiri, má þar nefna ferðaþjónustu, orkusækinn iðnað og hugverkaiðnað og sjávarútvegur er stöðugri en hann var fyrir fjórum áratugum sem rekja má til kvótakerfisins.

Höfum í huga að atvinnulífið hefur ríka hagsmuni af því að kaupmáttur almennings aukist. Helmingur af hagkerfinu byggir á þjónustu hvert við annað. Hagsmunir atvinnulífsins og heimila eru því samtvinnaðir. Kaupmáttaraukning fæst með því að hagkerfið verði stöðugra. Það fer mikil orka og sóun í að takast á við miklar sveiflur í hagkerfinu. Atvinnulífið er ýmist í stórsókn eða að sleikja sárin eftir dýfu. Sveiflurnar torvelda langtímaáætlanir, draga úr fjárfestingu og þar með aukinni framleiðni sem er forsenda þess að fyrirtæki geti hækkað laun. Að sama skapi standa þessar miklu sveiflur nýsköpun fyrir þrifum.

Taka má þetta dæmi til útskýringar um kosti stöðugs efnahagslífs: Þegar lagt er af stað á árabát er gott að halda stefnu: ekki alltaf að róa með hægri og svo vinstri á víxl.“

Krónan í öndunarvél

Krónan hefur ekki fallið í þessari kreppu eins og alla jafna í kreppu?

„Seðlabankinn heldur henni í öndunarvél. Það er skynsamt enda býr hann að miklum gjaldeyrisforða og engin ástæða til að leyfa krónunni að sökkva eins og steini á meðan ferðaþjónustunnar nýtur ekki við á tímum COVID-19. Seðlabankinn hefur gefið til kynna að það séu takmörk fyrir að hve miklu leyti hann getur beitt sér með þessum hætti. Þegar ferðaþjónustan fer af stað á nýjan leik þarf að reyna á jafnvægisgengið. Það mun þó ekki reyna á það fyrr en á miðju næsta ári þegar við erum vonandi komin í þann veruleika sem tekur við þegar bólusetningum gegn COVID-19 lýkur, hvort sem faraldurinn verður að baki eða við verðum að lifa með honum með einhverjum hætti.“

Vaxandi launakostnaður

Þorsteinn segir að á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafi launakostnaður fyrirtækja aukist um tíu prósent á milli ára en laun hafi verið hækkuð í apríl síðastliðnum og við upphaf árs. „Slíkar hækkanir leiða til þess að lengri tíma tekur að vinna bug á atvinnuleysinu. Verkalýðshreyfingin neitar að horfast í augu við það.“

Tilfinningahlaðnar staðhæfingar

Fráfarandi forstjóri Domino’s á Íslandi sagði í Markaðnum fyrir viku að Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði hefðu látið KPMG vinna skýrslu um rekstrarumhverfi veitingageirans á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin. Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði að þau gögn hefðu enga vigt í hennar huga?

„Umræða verkalýðshreyfingarinnar byggir ekki á gögnum eða staðreyndum heldur oft tilfinningahlöðnum staðhæfingum. Athygli vekur að það virðist ekki ríkja traust eða gagnkvæmur skilningur á bak við tjöldin. Auðvitað eru átök á vinnumarkaði að einhverju leyti sýning.“

Þú ættir að þekkja það frá því þú varst þingmaður; það þarf að segja eitt og annað opinberlega?

„Stjórnmálin þurfa að tala inn í sinn hóp og vinnumarkaðurinn þarf að gera það líka. Auðvitað skilur maður það.

Þegar ég starfaði sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins náðist gott samtal við samningaborðið á endanum. Það gátu orðið hörð átök en það náðist að leysa úr ágreiningnum. Sú staða er ekki fyrir hendi í dag. Mikið vantraust ríkir á milli aðila. Athygli vekur að það ríkir ekki síður vantraust innan verkalýðshreyfingarinnar.“

Þorsteinn bendir á að VR og Verkalýðsfélag Akraness hafi boðað málaferli gagnvart ASÍ og Samtökum atvinnulífsins vegna breytinga á lífeyrisgreiðslum. „Þetta er sérkennileg staða.“

Stjórnmálin haldi að sér höndum

Þorsteinn var þingmaður fyrir Viðreisn á árunum 2016 til 2020 og félags- og jafnréttismálaráðherra árið 2017. Hann bendir á að á hinum Norðurlöndunum sé það viðurkennt að stjórnmálin eigi ekki að skipta sér af vinnumarkaðsmálum. „Ég held að stjórnmálin hér skipti sér of mikið af vinnumarkaðsmálum. Aðgerðir af hálfu stjórnvalda eru of samtvinnaðar kjarasamningsviðræðum. Listinn sem stjórnvöld eiga að vinna í tengslum við slíka samninga er sífellt að lengjast. Það er ekki heilbrigt til lengri tíma. Það á ekki að beita pólitík í vinnudeilum né vinnudeilum á pólitík.“

„Umræða verkalýðshreyfingarinnar byggir ekki á gögnum eða staðreyndum heldur oft tilfinningahlöðnum staðhæfingum,“ segir Þorsteinn.
Fréttablaðið/Ernir

Sárt að missa fyrirtækið

Að allt öðru. Fjölskylda þín missti BM Vallá eftir hrunið. Það er sárt að missa fyrirtækið sitt. Stóðst það væntingar fyrir þig persónulega að hefja aftur störf hjá fyrirtækinu eða setur það strik í reikninginn að fjölskyldan er ekki á meðal hluthafa?

„Það var sárt á sínum tíma að missa fyrirtækið, gríðarlegt áfall. En það er ekki heilbrigt að lifa í fortíðinni eða horfa sífellt til baka til einhvers sem ekki er hægt að breyta. Ég hóf störf hjá Hornsteini í fyrstu bylgju COVID-19. Skrifstofan var lokuð, einungis einn starfsmaður var á skrifstofunni með mér. Aðrir unnu heima hjá sér. Mér fannst ómögulegt að byrja hjá fyrirtækinu aftur eftir tíu ára hlé og vera heima í fjarvinnu. Ég man vel eftir tilfinningunni þegar ég hélt heim eftir fyrsta daginn. Það var líkt og ég hefði aldrei farið. Fyrirtækið á stóran hlut í hjarta mínu; ég ólst hér upp, var í sumarstörfum og stýrði því við hlið föður míns í hartnær áratug. Ég er ekki bitur þótt við höfum misst fyrirtækið. Það var sárt en um leið mikil reynsla.“

Horfir þú til þess að eignast hlut í fyrirtækinu?

„Nei, ég er launamaður og mjög sáttur við að starfa hjá Hornsteini. Eignarhaldið er traust og gott.“

Þýski sementsframleiðandinn Heidelberg Cement á 53 prósenta hlut í samstæðunni á móti hópi íslenskra fjárfesta.

BM Vallá er langstærsta dótturfélag samstæðunnar sem myndar Hornstein. Félagið velti sex milljörðum árið 2019, Sementsverksmiðjan 1,3 milljörðum króna og Björgun 1,1 milljarði. BM Vallá framleiðir steypu, hellur, einingar og múr og vinnur vikur. Sementsverksmiðjan flytur inn sement. Björgun framleiðir fylliefni úr námum í sjó og á landi.

Engin vaxtaberandi lán

Hvernig gekk reksturinn á árinu 2020?

„Hann gekk vonum framar jafnvel þótt reksturinn hafi dregist saman annað árið í röð sökum minni umsvifa í byggingariðnaði. Við nutum góðs af því að samstæðan er sterk og er ekki með vaxtaberandi lán.

Við höfum orðið að gæta aðhalds í rekstri á undanförnum árum og aðlaga reksturinn breyttu umfangi. Við seldum eldri tækjabúnað og fækkuðum starfsfólki, fyrst og fremst með því að stöðva nýráðningar. Aðhaldsaðgerðir leiddu til þess að afkoman var með svipuðum hætti og á árinu 2019.

Það var ánægjuleg niðurstaða því við óttuðumst í upphafi síðasta árs að markaðurinn yrði fyrir miklum skelli vegna COVID-19. Byggingarverktakar kipptu enda að sér höndum á fyrstu vikum faraldursins en stýrivaxtalækkanir Seðlabankans höfðu mikil og jákvæð áhrif á síðari hluta ársins,“ segir Þorsteinn.

„Hann gekk vonum framar jafnvel þótt reksturinn hafi dregist saman annað árið í röð sökum minni umsvifa í byggingariðnaði,“ segir Þorsteinn.
Fréttablaðið/Valli

Tekjur samstæðunnar drógust saman úr 8,4 milljörðum króna árið 2018 í 7,5 milljarða króna, eða um ellefu prósent. Fyrirtækið hagnaðist um 1.352 milljónir króna árið 2018 en 705 milljónir króna árið 2019. Arðsemi eiginfjár var 15 prósent á árinu 2019 en eiginfjárhlutfallið var 81 við lok árs þess árs.

Miklar brotalamir í skipulagsmálum og stjórnsýslu

Á áratug þarf Hornsteinn að flytja meira og minna alla starfsemi samsteypunnar vegna áforma um uppbyggingu nýs hverfis á Höfðanum. Auk þess þarf að flytja starfsemi sem er í Garðabæ og Akranesi fyrir árið 2030. „Þetta er stórt verkefni,“ segir Þorsteinn.

Framkvæmdir hófust að hluta í haust við að flytja Björgun frá Sævarhöfða að Álfsnesvík sem er skammt frá Esjumelum. Sú starfsemi mun hefjast í haust. Viðræður standa yfir við Reykjavíkurborg um að færa BM Vallá, sem hefur verið á núverandi stað í meira en hálfa öld, að Esjumelum. „Það vill enginn hafa steypustöð í bakgarðinum,“ segir Þorsteinn og nefnir að vonandi verði stigin skref í þá átt eftir þrjú til fjögur ár.

„Viðræður við Reykjavíkurborg um nýja lóð fyrir Björgun varpa ljósi á miklar brotalamir í skipulagsmálum og stjórnsýslu. Ferlið hefur tekið allt of langan tíma eða nærri sjö ár en hefði vart þurft að taka lengri tíma en þrjú. Engu að síður voru ekki átök um hvert fyrirtækið ætti að fara og samstarfið við Reykjavíkurborg um margt gott. Hve langan tíma þetta hefur tekið er hins vegar óásættanlegt. Skipulagsmál hér á landi eru orðin svifaseint skrímsli sem standa hagvexti fyrir þrifum. Kerfið ræður illa við þær kröfur sem það hefur sett sér og afgreiðsla mála tekur því allt of langan tíma. Við heyrum sífellt fleiri dæmi um fyrirtæki í sömu sporum og við. Þetta regluverk verður að einfalda.


„Skipulagsmál hér á landi eru orðin svifaseint skrímsli sem standa hagvexti fyrir þrifum.“


Vinnan við að færa Björgun hófst árið 2016. Það var ljóst í upphafi hvaða staðir kæmu til álita og fór fram kostagreining á fimm eða sex staðsetningum. Þremur árum síðar rann leigusamningur við fyrirtækið út en enn var ekki komið leyfi fyrir nýrri staðsetningu. Á sama tíma þurfti auk þess að endurnýja námaleyfi. Margt skýrir þessar tafir. Vinna við aðalskipulag og umhverfismat tók langan tíma. Við lentum í átökum við Minjastofnun seint í ferlinu þrátt fyrir að hafa átt gott samráð við stofnunina í upphafi þess og vinna Orkustofnunar við ný náma­leyfi hefur dregist langt úr hófi.

Við lögðum alla tíð mikið upp úr því að vanda til allra þátta enda um fjárfestingu upp á 1,5 milljarða króna að ræða. Það hversu langan tíma svona fjárfestingarferli tekur ætti að vera stjórnvöldum áhyggjefni. Það örvar ekki fjárfestingu hér á landi. Ekkert fyrirtæki eins og Björgun hefði þolað það að missa lóð sína í tvö ár án þess að hafa sterkan bakhjarl. Flest fyrirtæki hefðu orðið gjaldþrota við þessar aðstæður. Meira en helmingur af starfsemi Björgunar byggir á því að hafa lóð til að vinna efni á. Þegar Björgun missti lóðina hvarf sú starfsemi eins og dögg fyrir sólu. Blessunarlega voru fleiri stoðir undir rekstrinum og okkur tókst að spila þolanlega úr stöðunni,“ segir Þorsteinn.

Kolefnishlutlaus árið 2030

Hornsteinn stefnir á að starfsemin verði kolefnishlutlaus árið 2030. „Á heimsvísu eru 35 til 40 prósent af kolefnisfótspori heimsins frá byggingariðnaði. Það má að miklu leyti rekja til sements- og stáliðnaðar. Það verður mikil áskorun fyrir okkur að verða kolefnishlutlaus árið 2030. Við höfum ekki kortlagt alla leiðina að markmiðinu en teljum okkur sjá til lands með 60 prósent af núverandi losun.“

Hvernig hyggist þið draga úr losun kolefnis?

„Þetta er langhlaup þar sem ráðist er að öllum póstum. Stór þáttur er sementið sjálft. Við horfum til þess að skipta yfir í sement með lægra kolefnisspori en er nýtt í dag. Birgirinn okkar í Noregi tekur þátt í einu stærsta niðurdælingarverkefni á koltvísýringi í norðanverðri Evrópu sem mun helminga kolefnisspor framleiðslunnar. Þetta snýr einnig að því magni af sementi sem verið er að nota. Það þarf að huga meira að kolefnisspori þegar verið er að hanna og byggja húsnæði án þess þó að fórna gæðum. Við höfum ekki aðlagað hönnun mannvirkja nægjanlega þeim kröfum sem loftlagsmálin gera til okkar. Við munum einnig draga úr kolefnissporinu með orkuskiptum í flutningum, til dæmis með vetni. Þróunin á því sviði er hröð. Okkur tókst að minnka kolefnissporið um tæp fimm prósent á síðasta ári.“

Athugasemdir