Hluthafar í Boeing hafa í auknum mæli fjárfest í afleiðum tengdum hlutabréfaverði flugvélaframleiðandans til þess að verja sig gagnvart frekari verðlækkunum bréfanna.

Hlutabréf í Boeing hafa fallið um meira en tíu prósent í verði frá því á mánudag en vél af gerðinni Boeing 737 MAX 8, með 157 manns innaborðs, fórst sem kunnugt er í Eþíópíu síðasta sunnudag. Hafa tvær vélar af þeirri tegund nú farist með fimm mánaða millibili.

Í kjölfar slyssins á sunnudag ákváðu flugfélög og flugmálayfirvöld víða um heim að kyrrsetja fyrrnefnda vélartegund sem og MAX 9 vélar framleiðandans.

Fjárfestar brugðust illa við tíðindunum eins og sjá má á hríðfallandi gengi hlutabréfa í Boeing. Til viðbótar gefa nýleg afleiðuviðskipti með bréfin til kynna að hluthafar í flugvélaframleiðandanum óttist frekari verðlækkanir bréfanna.

Þannig hefur samningum um sölurétt með hlutabréf í Boeing, sem veitir kaupanda rétt til þess að selja bréfin á fyrirfram ákveðnu verði innan ákveðinna tímamarka, fjölgað verulega á síðustu dögum en 237 þúsund slíkir samningar voru gerðir á þriðjudag. Það eru tuttugufalt fleiri söluréttarsamningar en gerðir eru að meðaltali með bréf í flugvélaframleiðandanum á degi hverjum.

Á sama tíma hefur kostnaður við að gera afleiðusamninga með hlutabréfin nær tvöfaldast, að því er fram kemur í frétt Financial Times.

Bandarísk flugmálayfirvöld tilkynntu í gær að allar vélar af gerðinni Boeing 737 MAX verði kyrrsettar að minnsta kosti fram til maímánaðar.