Í frumvarpsdrögum fjármálaráðherra er lagt til að svigrúm lífeyrissjóðanna til fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum sé rýmkað og fært úr því að vera 50 prósent af heildareignum sjóðanna upp í 65 prósent. Sú breyting á að taka gildi í 15 jafnstórum skrefum á árunum 2024 til 2038.

Már segist einfaldlega ekki skilja hvers vegna það þurfi þennan langa aðlögunartíma. „Það er í raun verið að lýsa yfir vantrausti á lífeyrissjóðina og halda því fram að þeir skilji ekki að ef útflæði í fjárfestingum sé að gera það að verkum að krónan sé að veikjast of mikið þá þurfi að bregðast við því. Ef sú staða kæmi upp þá myndu íslenskir lífeyrissjóðir að sjálfsögðu hægja á sér.“

Már bætir við að það sé alls ekki æskilegt að hafa öll eggin í sömu körfunni. „Hvað áhættu varðar þá er alls ekki fýsilegt að hafa meginþorrann af fjárfestingum lífeyrissjóðanna innanlands. Árið 2008 upplifðum við ekki aðeins efnahagshrun, atvinnuleysi og þar fram eftir götunum heldur gerðist það líka að eignir fólks í lífeyrissjóðum lækkuðu í virði í stað þess að hækka í virði samhliða veikingu íslensku krónunnar þegar mest á reyndi.“

Aðspurður hvað væri eðlilegt hlutfall af fjárfestingum lífeyrissjóða erlendis segir Már að það sé í kringum 65 prósent eins og lagt er til í frumvarpsdrögunum. „Að mínu mati ætti að vera gólf en ekki þak á fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis.“