Verð hlutabréfa Icelandair hafði lækkað um 15,9 prósent 316 milljóna króna viðskiptum þegar markaðurinn lokaði í dag.

Ferðaþjónusturisinn birti uppgjör í gær og var afkoman á fjórða ársfjórðungi síðasta árs talsvert verri en greinendur gerðu ráð fyrir. 

Á kynningu fyrir fjárfesta í morgun sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, að hann teldi að „miklu meiri agi“ yrði á framboði á evrópskum flugmarkaði á næstu misserum. Talsverðar breytingar væru yfirvofandi í umhverfi flugfélagsins sem ættu að geta skapað ýmis tækifæri.

Icelandair Group hyggst ekki gefa út afkomuspá fyrir árið 2019 á þessu stigi. Ástæðurnar eru sagðar meiri óvissa í tekjuspám farþegatekna en áður sem og óvissuástand á íslenskum vinnumarkaði.

Sjá einnig: Býst við „miklu meiri“ aga á fram­boðinu

Mest velta var þó með bréf Marels sem hækkað um rétt tæp 2 prósent í 1,3 milljarða króna viðskiptum í Kauphöllinni. Úrvalsvísitalan hafði lækkað um 0,73 prósent þegar markaðurinn lokaði í dag.