Róbert Wessman, stjórnarformaður og stofnandi Alvogen og Alvotech, tekur við sem forstjóri fyrirtækisins Alvotech í byrjun næsta árs. Í samtali við Fréttavaktina á Hringbraut sem sýnd var fyrr í kvöld segir Róbert engar stórvægilegar breytingar fylgja í kjölfarið.
„Þetta er bara beint framhald af því sem við erum búin að vera að gera. Mark Levick sem var forstjóri í tæp þrjú ár byggði upp félagið með það að leiðarljósi að koma fyrstu vörunum á markað og byggja upp aðstöðu fyrirtækisins,“ segir Róbert.
Það sem taki við núna sé að halda áfram að byggja upp sölunetið. Levick, sem sé læknir að mennt, hafi óskað eftir því að hægja aðeins á þar sem hann sé að fara að kenna í Cambridge háskóla og vilji einbeita sér að vísindastörfum þar.
„Stjórnin óskaði eftir því að ég tæki við eftir að hann óskaði eftir því að draga úr vinnu. Þannig að þetta er í raun og veru bara eðlilegt framhald,“ segir Róbert.
Róbert hyggst halda áfram sem stjórnarformaður í fyrirtækinu, en hann segir það alþekkt bæði í Bandaríkjunum sem og Lúxemborg, þar sem félagið sé með móðurfélagið.
„Ég er í dag fjörutíu prósent hluthafi þannig að ég var aðeins nískur á að skilja stjórnarsætið eftir tómt. En það kemur ekki niður á neinu og mun eftir sem áður einbeita mér að öllum krafti með fólkinu að koma þessum lyfjum öllum á markað og spennandi tímar fram undan,“ segir Róbert.
Viðtalið í fullri lengd má sjá hér að neðan.