Gengi krónunnar held ég að sé á góðum stað núna miðað við undirliggjandi stærðir og það sé ekki efnahagsleg þörf á miklum gengisbreytingum í aðra hvora áttina. Ef það fer að gerast þá verður Seðlabankinn reiðubúinn til að halda áfram að beita inngripum til að viðhalda stöðugleika á þessum þunna en mikilvæga markaði,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í viðtali við Markaðinn.

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur lækkað vexti mjög bratt á árinu – úr 3 prósentum í 1 prósent – og við sjáum fram á að vera í umhverfi neikvæðra raunvaxta um nokkurt skeið. Hvað þýðir þetta?

„Þetta er ný staða fyrir Íslendinga að sjá svo lága vexti. Margir virðast ekki hafa trúað því að þetta gæti raunverulega gerst og Seðlabankinn gæti beitt stýritækjum sínum með sambærilegum hætti og þekkist erlendis. Við eigum hins vegar eftir að sjá betur hver áhrifin verða raunverulega. Vaxtalækkanir okkar hafa skilað sér tiltölulega vel til heimila en ég hef hins vegar áhyggjur af því að vaxtaálag fyrirtækjalána sé almennt að hækka. Það sem við vildum fá með þessum vaxtalækkunum er að örva fjárfestingu og koma í veg fyrir uppsagnir í þessum erfiðu aðstæðum.

Í nágrannalöndum okkar hafa svo lágir vextir leitt til mikilla hækkana á fasteignaverði á síðustu árum. Á móti kemur vitanlega nú að hagkerfið er í samdrætti og atvinnuleysi er að aukast hratt og tekjur marga því að dragast mjög saman. Við þurfum þó að fylgjast mjög vel með því ef slökunaraðgerðir okkar koma fram með því að fasteignaverð fari að hækka mikið. Og þá hvort það verði að grípa til einhverra aðgerða vegna þess.“

Aðspurður nefnir Ásgeir að fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans hafi yfir að ráða ýmsum tækjum til þess að takmarka skuldsetningu, en undirstrikar að það sé allt of snemmt að segja fyrir um áhrifin af vaxtalækkunum bankans á fasteignamarkað.


Lægra gengi hjálpar


Ásgeir segir að þrátt fyrir að vextir Seðlabankans verði vitaskuld ekki eitt prósent að eilífu, þá hafi hann væntingar til þess að vaxtastigið muni verða lægra til frambúðar en við höfum áður vanist.

„Lykilatriðið svo að það takist, er að við höldum verðbólgunni áfram í skefjum og stöndum undir því trausti sem Seðlabankanum er nú sýnt með lágum verðbólguvæntingum. Í því samhengi skiptir höfuðmáli að halda gjaldeyrismarkaðnum stöðugum. Krónan hefur veikst nokkuð eftir kórónu­veirufaraldurinn, sem er ekki óeðlilegt þegar stór hluti útflutningstekna þjóðarinnar þurrkast út. Lægra gengi hjálpar litlum, opnum hagkerfum að taka aftur við sér, skapa störf og bæta samkeppnishæfni atvinnulífsins. Ég hef ekki áhyggjur af því að þessi tíu prósenta gengisveiking krónunnar á árinu muni hreyfa við verðbólgunni svo miklu nemi. Við verðum nú brátt að fara horfa fram í tímann og líta til þess hvernig við getum aftur komið hagvexti af stað þegar faraldurinn er genginn yfir. Í því sambandi er lægra gengi algerlega nauðsynlegt.

Það hefur verið mér kappsmál að tryggja stöðugleika á gjaldeyrismarkaði – næg óvissa er nú þegar til staðar fyrir þjóðina. Í því efni hef ég haft samráð við lífeyrissjóðina sem ákváðu að hætta gjaldeyriskaupum í þrjá mánuði frá 17. mars síðastliðnum. Lífeyrissjóðirnir höfðu fram til þess að faraldurinn braust út, keypt gjaldeyri fyrir um liðlega tíu milljarða á mánuði.“

Nú tilkynnti Seðlabankinn á mánudag að samkomulagið hefði verið framlengt um þrjá mánuði til viðbótar. Var samstaða um það á meðal allra helstu lífeyrissjóðanna?

„Já, það var einhugur. Sjóðirnir hafa sýnt mikla samfélagslega ábyrgð með því að halda að sér höndum. Þeir hafa hins vegar eðlilega áhyggjur af því hvað muni taka við að þremur mánuðum liðnum. Ég hef gert þeim ljóst að Seðlabankinn þarf ekki að stækka forðann með frekari gjaldeyriskaupum og þeir munu fá boltann aftur um leið og svigrúm skapast til þess. Það skiptir máli, núna þegar það er fremur lítil velta á gjaldeyrismarkaði yfir sumarið, að það raskist ekki jafnvægið á gjaldeyrismarkaði. Síðan munum við sjá til hver staðan verður í haust.“

Í fyrsta sinn er það raunverulegur valkostur fyrir heimilin að skipta yfir í nafnvexti og þannig afnema verðtrygginguna að eigin frumkvæði af sínum lánum.

Seðlabankinn greip inn í gjaldeyrismarkaðinn tíu sinnum í mars og apríl, til að stemma stigu við snarpri gengisveikingu krónunnar, þegar hann seldi gjaldeyri fyrir krónur fyrir samtals um 17 milljarða. Frá þeim tíma hefur dregið mjög úr inngripum bankans, en undir lok síðasta mánaðar vann hann gegn mikilli gengisstyrkingu með því að kaupa gjaldeyri í þrígang fyrir um sex milljarða.

Þegar efnahagsáfallið reið yfir áttirðu þá fremur von á því að þurfa að beita tíðari gjaldeyrisinngripum en reyndin hefur orðið?

„Já, ég hélt það. Þetta hefur gengið betur en ég bjóst við í upphafi og bankinn þurfti aðeins að eyða um tveimur prósentum af gjaldeyrisforðanum til að bregðast við óróleika á gjaldeyrismarkaði þegar versta hrinan gekk yfir. Það vinnur með okkur að við vorum með mikinn viðskiptaafgang þegar fárið hófst, náðum samkomulagi við lífeyrissjóðina um að halda að sér höndum í gjaldeyriskaupum og síðan erum við með þennan myndarlega gjaldeyrisforða sem skapar trúverðugleika. Þá var nýleg erlend skuldabréfaútgáfa ríkissjóðs afar vel heppnuð og mikið styrkleikamerki.“


Verðlögðum okkur of dýrt


Áætlanir fjármála- og efnahagsráðuneytisins gera ráð fyrir að uppsafnaður halli ríkissjóðs á þessu ári og því næsta verði nærri 500 milljarðar króna. Ásgeir bendir því á að vaxtalækkanirnar muni koma ríkissjóði mjög vel.

Ásgeir segir að gengi krónunnar sé á góðum stað núna miðað við undirliggjandi stærðir og það sé ekki efnahagsleg þörf á miklum gengisbreytingum í aðra hvora áttina

„Það mun líklega taka þrjú til fjögur ár að vinda ofan af þessum mikla halla. Þá skiptir miklu máli að við getum gert þetta þannig að langtímavextir á markaði hækki ekki og vinni gegn miðlun peningastefnunnar. Við viljum heldur ekki sjá að vaxtagreiðslur af skuldum ríkisins verði eins háar og þær voru eftir fjármálahrunið. Þá þurfti ríkissjóður að fjármagna sig á mjög háum vöxtum hér innanlands, sem gerði aðlögunina mun erfiðari en ella og kallaði á mikinn niðurskurð í velferðarmálum sem dæmi. Nú eru allt aðrar aðstæður fyrir hendi og þá erum við líka vonandi að fara sjá mun skjótari efnahagsbata en þá.“

Það er núna verið að stíga fyrstu skrefin í að létta á þeim hömlum sem hafa verið á ferðalög til og frá landinu. Seðlabankinn spáir því að aðeins 400 þúsund ferðamenn komi til landsins í ár. Hvernig sérðu fyrir þér þróun ferðaþjónustunnar?

„Ferðaþjónustan náði þessum hraða vexti strax eftir fjármálahrunið þegar raungengið var lágt og launin sömuleiðis. Sá mikli fjöldi ferðamanna sem kom til landsins, skapaði miklar, nýjar tekjur fyrir atvinnulífið og ríkissjóð, leysti mörg af þeim vandamálum sem við vorum að eiga við á þessum árum, án þess að þjóðin hafi velt því mikið fyrir sér hvað væri skynsamlegt að gera eftir fall bankanna. Núna er hins vegar kannski tilefni til stefnumörkunar til framtíðar, sem miðar að því að auka samkeppnishæfni landsins og örva fjárfestingu – en við hærra launastig. Lækkun vaxta mun hjálpa þar mikið til og skapa forsendur fyrir nýrri uppsveiflu.“

Verður sú uppsveifla þá ekki drifin áfram af ferðaþjónustu að þínu mati?


„Ferðaþjónustan mun auðvitað koma sterk til baka þegar faraldrinum linnir og verða áfram mikilvæg stoð í íslensku hagkerfi. En hún er ein og sér ekki að fara standa undir þeim hagvexti sem við þurfum á komandi árum. Framtíð þessarar greinar verður ekki sú hin sama og við þekktum áður. Það viðskiptamódel byggðist upphaflega á ódýrum flugfargjöldum og ódýru vinnuafli. Eftir síðustu kjarasamninga verðlögðum við okkur út af markaðnum í samkeppni við önnur lönd og tími lágra flugfargjalda til og frá landinu leið undir lok með falli WOW air í fyrra.“


Launin ekki óháð tekjuöflun


Hækkandi launakostnaður vegur á móti ávinningi sem fylgir lægri vöxtum. Mörg fyrirtæki eiga erfitt með að standa undir honum, en áfram er samt krafist hærri launa, bæði á almenna og opinbera markaðnum, þrátt fyrir þær efnahagshamfarir sem fylgdu veirunni. Hvað veldur?

„Áður fyrr var hagkerfið ávallt endurstillt á lægra launastigi með því að fella gengið ef útflutnings­atvinnuvegirnir urðu fyrir áfalli, sem hleypti verðbólgunni af stað, og lækkaði raunlaunin. Þannig var hagvöxturinn endurnýjaður. Við erum ekki að fara þá leið núna. Okkur hefur tekist að mæta þessu áfalli án þess að raunlaun fólks hafi verið skert, en það gæti jafnframt falið í sér að atvinnuleysi verði meira og þrálátara en áður hefur þekkst. Verkefnið sem aðilar vinnumarkaðarins standa frammi fyrir, ásamt þeim sem fara með hagstjórn, er að reyna að koma í veg fyrir að atvinnuleysið festist í sessi.

Sögulega séð hefur verkalýðshreyfingin nánast aldrei farið fram á launahækkanir í niðursveiflum. Það var grundvöllur gengisfellinga á sínum tíma að verkalýðsfélögin kröfðust ekki launahækkana strax í kjölfarið. Það sama var uppi á teningnum eftir fjármálahrunið 2008, en þá var fremur horft til þess að reyna skapa atvinnu. Við ættum að hafa þetta hugfast við núverandi aðstæður. Það er mikið áhyggjuefni ef ungt fólk, svo dæmi sé tekið, kemst ekki inn á vinnumarkaðinn um langt skeið, og þá getur það misst móðinn og endað sem bótaþegar alla ævi. Því fylgir mikil sóun á mannauði þegar fólk getur ekki byggt upp starfsframa á vinnumarkaði. Það hvílir því mikil ábyrgð á herðum þeirra sem ráða för á vinnumarkaði og umræðan, eins og hún er oft núna, má ekki verða þannig að launin geti þróast algjörlega óháð tekjuöflun hagkerfisins hverju sinni.“

Íslenskir fjármagnseigendur hafa verið nokkuð góðu vanir á undanförnum árum og það hefur reynst þeim fremur auðvelt að fá áhættulausa ávöxtun á fé sitt.Með lífskjarasamningum var lagt upp með tiltölulega hóflegar launahækkanir og að vextir gætu lækkað. Það hefur gengið eftir. Samt sjáum við suma formenn stéttarfélaga hóta því að slíta lífskjarasamningum. Finnst þér það til marks um ábyrgð?

„Ég skal ekki segja til um það en ég held að lífskjarasamningarnir hafi heppnast ótrúlega vel.“

En af hverju eru sumir þá farnir að tala um að slíta þeim?

„Það erfitt fyrir mig að svara því en það er ljóst að efnahagslegar forsendur samninganna hafa nokkurn veginn allar gengið eftir. Það er sjaldgæft með kjarasamninga. Okkur hefur tekist að vernda kaupmátt heimilanna og verðlag hefur haldist stöðugt. Næsta skref er að tryggja að atvinnulífið geti tekið við sér og farið að skapa ný störf.“


Fyrsta sinn raunverulegur valkostur


Seðlabankinn spáir rúmlega 9 prósenta atvinnuleysi í ár. Óttast þú að við kunnum að festast í háu langtímaatvinnuleysi?

„Sú hætta er fyrir hendi. Við skulum muna að það er valkvöð á milli verðbólgu og atvinnuleysis. Ég sé að minnsta kosti ekki hvernig aðrir kjarasamningar geta komið í stað lífskjarasamningsins í þessu mikla atvinnuleysi. Ójafnvægið getur komið fram með mismunandi hætti. Þegar það ríkti óðaverðbólga á árunum 1972 til 1990, þá mældist atvinnuleysi sjaldnast yfir einu prósenti. Atvinnuleysinu var haldið niðri með stöðugri verðbólgu sem át alltaf upp kaupmáttinn eftir að samið hafði verið um tugprósenta nafnlaunahækkanir.“

Eiga þessi sömu lögmál enn við í dag?

„Vitaskuld. Það er ekki hægt að viðhalda verðstöðugleika nema það sé sömuleiðis stöðugleiki á vinnumarkaði. Þetta helst í hendur. Ef okkur farnast að komast í gegnum þetta áfall án þess að raska þessum stöðugleika, þá held ég að við séum að fara að sjá ýmsar jákvæðar breytingar, s.s. lægri vexti til framtíðar.“

Heimilin hafa á undanförnum misserum í stórum stíl verið að færa sig yfir í óverðtryggð lán. Finnst þér raunhæft að þau muni því alfarið segja skilið við verðtrygginguna?

„Verðtryggingin var upphaflega sett á vegna þess að við réðum ekki við verðbólguna. Núna eru tímarnir breyttir. Í fyrsta sinn er það raunverulegur valkostur fyrir heimilin að skipta yfir í nafnvexti og þannig afnema verðtrygginguna að eigin frumkvæði af sínum lánum. Þetta eru mikil tímamót og fela í sér að verðtryggingin mun deyja út.“

Að mati Ásgeirs munum við sjá fram á lága vexti til framtíðar ef okkur tekst að komast í gegnum þetta áfall án þess að raska stöðugleika á vinnumarkaði og verðstöðugleika.Það ætti að hjálpa Seðlabankanum við að bæta miðlun peningastefnunnar?

„Það mun breyta mjög miklu ef almenningur fer yfir í breytilega, óverðtryggða vexti. Það þýðir að okkar vaxtabreytingar munu bíta mjög fast, en um leið fylgir því mikil ábyrgð fyrir Seðlabankann. Breytilegir vextir óverðtryggðra lána eru ekki alveg hættulausir. Þeir hvatar sem hafa verið innbyggðir í verðtryggðu lánunum eru hins vegar að mörgu leyti óheppilegir og skapa þá hættu að höfuðstóll þeirra getur stökkbreyst við verðbólguskot. Þegar fólk er komið í umhverfi breytilegra nafnvaxta mun það án efa fylgjast mun betur með öllum vaxtabreytingum Seðlabankans – og greiða lánin hraðar niður.“

Viðskiptabankarnir, sem fjármagna nánast allt atvinnulífið, gegna augljóslega lykilhlutverki fyrir viðspyrnu efnahagslífsins. Þeir hafa verið gagnrýndir fyrir að hafa ekki skilað vaxtalækkunum að fullu til sinna viðskiptavina og vísa þá til þess að það sé takmörkunum háð hvað þeir geti gengið á vaxta­muninn. Hefðirðu viljað sjá þá gera betur hvað þetta varðar?

„Já, að sumu leyti. Við höfum séð það af reynslunni erlendis að lágvaxtaumhverfi, eins og við erum núna að upplifa á Íslandi, er almennt erfitt fyrir rekstur banka. Aðstæður hér á landi eru öðruvísi en á hinum Norðurlöndunum þar sem bankarnir lána lítið til heimila og fyrirtækin sækja að stórum hluta fjármögnun sína á skuldabréfamarkaði. Íslensku bankarnir eru fyrst og fremst fyrirtækjabankar. Vaxtalækkanir Seðlabankans hafa skilað sér tiltölulega vel til heimila í formi bættra kjara á íbúðalánum og ég vildi gjarnan sjá lækkun vaxta skila sér einnig til fyrirtækja, sérstaklega til þeirra sem eru ekki í vandræðum og hyggja á nýjar fjárfestingar.

Ég geri ekki ráð fyrir því að erlend ferðaþjónusta muni skila miklu í hagkerfið á þessu ári og því þurfum við að örva innlenda eftirspurn. Við vitum enn ekki almennilega hver áhrifin af eins prósents vöxtum verða, og að hve miklu marki þeir munu örva hagkerfið á komandi misserum. Ef það gengur ekki eftir – þurfum við mögulega að gera enn betur. Ólíkt flestum öðrum vestrænum seðlabönkum höfum við enn ekki gripið til ýmissa óhefðbundinna aðgerða, en við gætum gert það ef hagkerfið stendur á sér.“Mun ekki standa á bankanum


Með margvíslegum aðgerðum sem Seðlabankinn og ríkið hafa ráðist í, meðal annars lækkun á bindiskyldu, bankaskatti og sveiflujöfnunarauka, hefur útlánageta bankanna verið aukin um mörg hundruð milljarða. Nú hafa komið fram tillögur um að reglur um veðlánaviðskipti verði rýmkaðar til muna, þannig að þeir geti átt í lánaviðskiptum við bankann til þriggja ára með sértryggð fasteignaskuldabréf að veði.

Bankarnir halda því fram að með þeim hætti gætu þeir miðlað því gríðarmikla lausafé sem þeir sitja nú á, áfram til heimila, og ekki hvað síst fyrirtækja, á enn lægri vöxtum en nú. Það muni aftur styðja verulega við viðspyrnuna. Hver er afstaða Seðlabankans til slíkra aðgerða?

„Þetta er eitthvað sem við munum ekki gera á þessari stundu. Við höfum lagt áherslu að skapa forsendur til þess að örva útlán til fyrirtækja frekar en heimila. Við vitum að bankarnir hafa nægt laust fé og þeir hafa gríðarlega útlánagetu. Sumar þær ráðstafanir sem við höfum kynnt, eins og síðast með að hætta að bjóða upp á 30 daga bundin innlán, munu mögulega hafa meiri áhrif en vaxtalækkunin sem slík og munu þrýsta á bankana að lána. Við þurfum að sjá hver áhrif þessara aðgerða muni verða áður en við stígum næstu skref. Það mun hins vegar ekki standa á Seðlabankanum að nýta öll þau úrræði sem hann hefur til að tryggja stöðugleika og örva hagkerfið – ef á þarf að halda.“

Þið hafi skikkað bankana til að fresta öllum arðgreiðslum og hætta kaupum á eigin bréfum. Hver er samfélagsleg ábyrgð bankanna í þessum aðstæðum? Eiga þeir að víkja frá arðsemissjónarmiðum og horfa til breiðari hagsmuna hagkerfisins?

„Við töldum það hluta af samfélagslegri ábyrgð bankanna, sem eru að tveimur þriðju hluta í eigu ríkisins, að hætta við arðgreiðslur í ár. Það væri óvarkárni. Okkar krafa til bankanna er að þeir miðli peningastefnu okkar áfram – og láni til fyrirtækja. Bankarnir eru samt sem áður sjálfstæð fyrirtæki og þeir veita auðvitað ekki lán sem þeir hafa trú á að þeir muni tapa. Það er engin samfélagsleg ábyrgð fólgin í því.

Með lækkandi vöxtum verða hlutabréfakaup vonandi eftirsóknarverðari fjárfestingakostur en eftir fjármálaáfallið hefur hlutabréfamarkaðurinn verið alltof lítill.

Í þessu óvissuástandi munu bankarnir þurfa að búa við lága arðsemi í mögulega tvö ár eða svo. Það er sett á herðar þeirra að endurskipuleggja skuldir ferðaþjónustunnar og til þess hafa þeir fengið ný úrræði í samvinnu við stjórnvöld með brúarlánum og stuðningslánum til fyrirtækja í rekstrarvanda. Þetta verður erfiður tími og fram undan er tími hagræðingar og endurskipulagningar fyrir ferðaþjónustuna. En við vonum að lægri vextir og örvun innlendrar eftirspurnar verði til þess að þessi vandræði breiðist ekki út til annarra greina, eins og byggingageirans og almenns atvinnulífs. Þess vegna skiptir svo miklu máli að örva innlenda eftirspurn til að koma í veg fyrir slíka atburðarás. Niðursveiflur eru gjarnan tími skapandi eyðileggingar og hagkerfi geta þá tekið miklum breytingum, eins og við sáum gerast hér á landi eftir fjármálahrunið. Mögulega getur slíkt hið sama gerst núna.

Samfélagsleg ábyrgð bankanna er því í raun að hafa nægjanlega mikla þolinmæði með lífvænlegum fyrirtækjum, þannig að við séum ekki að éta útsæðið og ganga of hart að þeim og þau geti þraukað í gegnum þessa tímabundnu erfiðleika.“

Ásgeir segir alveg ljóst að það mun taka lengri tíma að byggja upp flugsamgöngur til og frá landinu á nýjan leik ef Ice­landair hverfur af sjónarsviðinu
Fréttablaðið/ErnirSkaðinn skeður


Eitt af þessum fyrirtækjum sem er í miklum erfiðleikum er Icelandair, en félagið áformar að ráðast í hlutafjárútboð síðar í þessum mánuði, til að forða sér frá greiðsluþroti. Fylgist Seðlabankinn vel með stöðu Icelandair og er hann, ásamt stjórnvöldum, tilbúinn með plan B ef illa fer?

„Við fylgjumst mjög vel með stöðunni, en Seðlabankinn mun ekki hafa aðkomu að því að lána til félagsins ef á þarf að halda. Ef Icelandair hefði verið á bjargbrúninni fyrir um ári síðan, hefði Seðlabankinn án efa verið tilbúinn með viðlagaáætlun vegna þeirra afleiðinga sem það hefði fyrir hagkerfið. En núna má segja að skaðinn sé í reynd skeður, þar sem erlend ferðaþjónusta liggur nánast öll niðri.

Icelandair skiptir augljóslega miklu máli fyrir ferðaþjónustuna og endurreisn hennar. Það mun því hafa töluverð áhrif fyrir efnahagsbatann hvort félagið lifir af eða ekki, enda þótt áhrifin á hagvöxt þessa árs verði mögulega ekki veruleg. Það er alveg ljóst að það mun taka lengri tíma að byggja upp flugsamgöngur til og frá landinu á nýjan leik ef Ice­landair hverfur af sjónarsviðinu.“

Þegar vaxtastigið er orðið svona lágt hætta skuldabréf að gefa af sér beint tekjuflæði. Oft er sagt að hlutabréf breytist í skuldabréf við slíkar aðstæður.
Ljósmynd/Nasdaq Iceland


Fjármagnseigendur verið góðu vanir

„Ég er að vonast eftir því að lægri vextir muni ýta fjármagni yfir í áhættusamari fjárfestingar. Það gerist ekki strax, gæti tekið eitt til tvö ár, en það mun þá styðja við hraðan efnahagsbata sem kæmi þá fram á næsta ári. Þegar vaxtastigið er orðið svona lágt hætta skuldabréf að gefa af sér beint tekjuflæði. Oft er sagt að hlutabréf breytist í skuldabréf við slíkar aðstæður. Rótgróin íslensk rekstrarfélög, sem geta greitt út ágætis arð, verða þá talinn öruggur fjárfestingakostur og skila reglulegu tekjuflæði til fjárfesta eins og skuldabréf hafa hingað til gert,“ segir Ásgeir.

Seðlabankastjóri segist telja að fjármálamarkaðurinn hér á landi sé ekki enn búinn að meðtaka þær grundvallarbreytingar sem fylgja því að vextirnir séu orðnir svona lágir.

„Íslenskir fjármagnseigendur hafa verið nokkuð góðu vanir á undanförnum árum og það hefur reynst þeim fremur auðvelt að fá áhættulausa ávöxtun á fé sitt. En til að fá ávöxtun við þessar aðstæður þurfa fjárfestar að taka áhættu. Með lækkandi vöxtum verða hlutabréfakaup vonandi eftirsóknarverðari fjárfestingakostur en eftir fjármálaáfallið hefur hlutabréfamarkaðurinn verið alltof lítill og almenningur hefur verið hræddur að kaupa hlutabréf. Bein fjármögnun fjárfesta í eigin fjármögnun fyrirtækja hefur verið of lítil og ég vonast til að lægri vextir muni örva hlutabréfamarkaðinn og auðvelda fyrirtækjum að sækja sér það áhættufjármagn sem við sannarlega þurfum á að halda til að skapa ný störf og aukna verðmætasköpun í hagkerfinu.“