Íslensk orkumiðlun (ÍOM) og Straumlind, sem bæði starfa á smásölumarkaði með rafmagn, hafa keppst við að lækka verð til einstaklinga á undanförnum vikum. Frá lokum febrúarmánaðar hefur lægsta raforkuverð á markaði lækkað úr 7,15 krónum fyrir kílóvattstundina í 6,52 krónur, sem samsvarar um 9 prósentustiga lækkun á um það bil sex vikna tímabili.

Straumlind hóf að bjóða heimilum og fyrirtækjum rafmagn í smásölu þann 1. mars síðastliðinn, en ÍOM brást hratt við og lækkaði sín verð á móti. Verðlækkanir hafa svo haldið áfram á víxl síðan þá.

Í síðustu viku var greint frá því að Straumlind hefði sent Samkeppniseftirlitinu (SKE) erindi vegna meints framferðis ÍOM. „Eftir því sem Straumlind kemst næst hófst starfsemi ÍOM ekki með ólíkum hætti og hjá Straumlind. Einstaklingar með þekkingu og áhuga á raforkumarkaðinum stofnuðu raforkusölufyrirtæki og hófu sölu á rafmagni á almennum markaði. ÍOM lagði áherslu á lægra verð en samkeppnisaðilarnir og naut góðs af því í vexti félagsins,“ segir meðal annars í erindi Straumlindar til SKE.

„Straumlind hefur ekki nýjustu upplýsingar um markaðshlutdeild ÍOM en telur ekki óvarlegt að áætla að hún hafi vaxið umtalsvert á því ári sem liðið er frá því að Festi hf. keypti allt hlutafé félagsins. […] Straumlind fer þess á leit að Samkeppniseftirlitið taki háttsemi Íslenskrar orkumiðlunar gagnvart Straumlind til skoðunar og hvort hún geti talist hafa skaðleg áhrif á samkeppni á markaði, þrátt fyrir að hún brjóti mögulega ekki gegn bannákvæðum samkeppnislaga,“ segir jafnframt í erindi Straum­lindar.

Þegar þetta er skrifað býður Straumlind upp á lægsta raforkuverð til neytenda, eða 6,52 krónur á kílóvattstundina. ÍOM býður 6,53 krónur.

Magnús Júlíusson var meðal stofnenda ÍOM og starfar nú sem deildarstjóri á orkusviði N1 í kjölfar yfirtöku Festi, segir að samkeppni á raforkumarkaði sé fagnaðarefni. „Samkeppni er neytendum til hagsbóta. Þegar við komum inn á markaðinn bjuggumst við við miklu meiri viðbrögðum frá gamalgrónu raforkusölunum en þau voru mjög takmörkuð. Núna er samkeppnin farin af stað sem hefur orsakað töluverða verðlækkun á mörkuðum á stuttum tíma,“ segir Magnús.


Raforka til þrautavara


Nýlega tók Orkustofnun upp nýtt verklag við ákvörðun á svokölluðum raforkusala til þrautavara. Alltaf þegar einstaklingar flytja í nýtt húsnæði eða þurfa að skrá sig hjá raforkusala í fyrsta sinn þurfa viðkomandi að velja sér raforkusala innan fárra sólarhringa. Annars enda viðkomandi í viðskiptum hjá raforkusala til þrautavara.

Magnús Júlíusson, deildarstjóri orkumála hjá N1.

„Áður fyrr settu dreifiveitur alla í viðskipti hjá sínum tengdu aðilum. RARIK setti fólk í viðskipti hjá Orkusölunni, Veitur sendu alla til Orku Náttúrunnar og HS Veitur skráðu viðskiptavini hjá HS Orku,“ segir Magnús, sem segir að ÍOM og aðrir aðilar á markaði hafi krafist þess að fleiri hefðu kost á því að verða raforkusali til þrautavara, eða sjálfvirkur raforkusali eins og það kallaðist í eldra kerfinu.

Í kjölfarið hóf Orkustofnun að útnefna raforkusala til þrauta­vara og hreppti ÍOM hnossið fyrst fyrirtækja fyrir tímabilið 1. júní til 31. október 2020. Orkusalan, sem er dótturfyrirtæki RARIK, kærði hins vegar þá ákvörðun, enda hefði Orkustofnun ekki fullnægt lögbundinni rannsóknarskyldu sinni við ákvörðun um raforkusala til þrautavara.

Núna er samkeppnin farin af stað sem hefur orsakað töluverða verðlækkun á mörkuðum á stuttum tíma

Fram kemur í umfjöllun úrskurðarnefndar raforkumála um málið að verklag Orkustofnunar fól í sér að skoða verð á vefsíðunni aurbjorg.is og láta smásöluverð þann 13. maí 2020 liggja til grundvallar ákvörðunar um raforkusala til þrautavara á fimm mánaða tímabili.

En snýst málið einfaldlega um að hljóta sess raforkusala til þrauta­vara, svo einstaklingar sem ekki skeyta um að velja sér raforkusala lendi þar? Símon Einarsson, einn eigenda og starfsmanna Straum­lindar, segir að svo sé ekki: „Raforkusali til þrautavara er ekki allt. Það er gaman að geta boðið heimilum lágt verð. Því stærri sem við erum því auðveldara er það. Síðan við komum á markað hefur rafmagnsverð lækkað og nú er um 20 prósenta munur á hæsta og lægsta verði en það jafngildir 1,2 milljörðum árlega fyrir íslensk heimili.

En það sem okkur finnst spennandi er að taka þátt í að gera raforkukerfið snjallara. Á þeim vettvangi eru ýmis spennandi tækifæri. Eitt dæmi er að með tilkomu snjallmæla á íslenskum heimilum opnast sá möguleiki að selja ódýrara rafmagn á nóttunni. Slíkt getur hentað rafbílaeigendum ákaflega vel og það yrði kjörið að hlaða bílinn að næturlagi. Þannig má bæði spara og dreifa álaginu betur á raforkukerfið,“ segir Símon