Íslenskir neytendur furða sig á verðlagi á íslensku grænmeti frá garðyrkjustöðinni Akur. Heitar umræður mynduðust í Facebook - hópnum, Vertu á verði -eftirlit með verðlagi, eftir að neytandi birti myndir af perlutómötum frá Akri, 250 grömmum á 1.198 krónur, sem þýðir að kílóverðið eru tæpar fimm þúsund krónur.

Samskonar íslenskir tómatar frá öðrum framleiðanda kosta um 600 krónur í sömu verslun.

Neytendum þóttu þessir tómatar heldur dýrir en kassinn var á 1.198 krónur í verslun Krónunnar.
Fréttablaðið/Skjáskot

Þórður G. Halldórsson ylræktarbóndi á garðyrkjustöðinni Akur segir að í stuttu máli stafi verðmunurinn fyrst og fremst af uppskeru.

„Uppskerumunurinn stafar af því að kollegar mínir eru í heilsársræktun. Þeir rækta ekki jarðvegi, heldur rækta í einhvers konar rennum. Til að taka dæmi þá færði nágranni minn hér í Bláskógarbyggð framleiðsluna sína úr mold yfir í þessar rennur og jók ræktunina um 25 prósent. Þegar það er búið að færa framleiðsluna úr jarðveginum þá verður hún mun meiri."

Í upphafi bauð Akur upp á grænmeti í heimsendingu.
Vilhelm Gunnarsson

Þeir sem að töldu verðið á tómötunum ásættanlegt í umræðunum á Facebook töluðu margir hverjir fyrir því að grænmetið frá Akri væri lífrænt ræktað og því eðlilegt að verðið væri hærra.

Vörurnar frá Akri eru hins vegar ekki lífrænt vottaðar. „Við vorum með lífræna vottun þegar við hófum ræktunina hér árið 1991 og vorum alltaf með það að markmiði að stunda lífræna ræktun. Árið 2014 herti Matvælastofnun reglurnar um lífræna vottun sem varð til þess að við máttum ekki nota svepparotmassa lengur sem er undirstaða í okkar ræktun og ef við ættum að hætta að nota hann þá myndi það ógna afkomu okkar sem framleiðanda. Við höfum engu breytt og ræktunin okkar er enn þá lífræn, hún er bara ekki vottuð og við markaðssetjum okkur ekki sem lífræna garðyrkjustöð."

Akur er ekki með lífræna vottun en stundar þó lífrænar aðferðir í framleiðslu sinni.
Ljósmynd/Akur

Þórður segir að þegar að hann hafi hafið ræktun fyrir tæplega þrjátíu árum síðan var stöðin að uppskera um 70 til 80 prósent miðað við hefðbundinn bónda. Þá hafi margir stundað eins ræktun og hann, í mold og árstíðarbundna. Þegar að fleiri fóru svo að færa grænmetisræktun yfir í rennur og í heilsársræktun þá er Akur að uppskera í mesta lagi um 50 prósent af hefbundni framleiðslu. „Í sumu erum við enn þá lægri, t.d. paprikum."

Hann segir að uppskeran skipti mestu máli en einnig sé framleiðsluferlið dýrara hjá þeim. „Við erum með meira vinnuafl, það er meiri handavinna í kringum þessa ræktun en hefðbundna ræktun."

Neytandi í umræddum Facebook hóp sagðist aldrei hafa skilið verðlagninguna á grænmetinu frá Akri og að sér þætti hún fullkomlega út úr kortinu. „Spurning hversu mikil afföll verða í versluninni af matvöru sem er svo dýr að fæstir hafa efni á að kaupa hana?" Þórður segir að verðið hafi engin áhrif á afföll, Akur hafi ekki undan eftirspurninni og að fólk viti hvaðan varan komi þegar það kaupi hana.

Eftirspurnin er mikil

Hann segist meðvitaður um að grænmeti frá Akri sé töluvert dýrara en annað íslenskt grænmeti en það hafi ekki áhrif á söluna.

„Auðvitað finnst öllum matur dýr. Vandamálið okkar er að við eigum aldrei nóg, það endurspeglar kannski eftirspurnina. Fólk metur vöruna okkar á því verði sem við erum að selja hana á."

Hann segir að þau hafi ekki enn lent á vegg hvað varðar verðlagið.

„Framleiðslan hefur aldrei orðið of mikil, við erum enn þá að reyna að framleiða meira til að eiga í eftirspurnina. Það þykir okkur yndislegt, að fólk meti það sem við erum að gera. Við misnotum okkur heldur ekki ástandið, reynum að miða verðið okkar út frá sanngirnissjónarmiðum. Annars vegar erum við með dýran rekstur og hins vegar reynum við að hafa verðið þannig að það sé ásættanlegt. Stundum erum við með tvöfalt eða þrefalt verð miðað við samkeppnisaðila en það hefur ekki áhrif á söluna."

Fjölskyldufyrirtæki

Akur er fjölskyldufyrirtæki, í upphafi rekstrar stöðvarinnar voru áskriftakassar sendir til vina og vandamanna. Í dag er stöðin með bændamarkað í Reykjavík með netverslun og heimsendingu en vörunar fást einnig í völdum matvörubúðum. Fjölskyldan á Akri fór í heilsársræktun á tímabili en það reyndist erfitt að rækta grænmeti í mold allan ársins kring. Nú hafa þau snúið sér aftur að sumarræktun en byrja fyrr á vorin og hætta seinna á haustin.

„Nú er kominn sá tími ársins að við erum að hætta öllu, enda komið langt fram í nóvember. Gúrkurnar halda áfram í einhverjar vikur. Auk þess eru ræktaðar ýmsar tegundir grænmetis á stöðinni, tómatar, kirsuberjatómatar, paprikur í ýmsum litum og chile-pipar."