Verðmatsgengi Jakobsson Capital á Skeljungi lækkaði um 1,5 prósent í 10,0. Markaðsgengið er 10,3 krónur á hlut. „Reksturinn í Færeyjum gengur mjög vel en reksturinn hér á Íslandi er þungur,“ segir verðmati sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Rekstrarhagnaður Skeljungs í Færeyjum nam 415 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 242 milljónir króna hagnað á sama tíma í fyrra.

Á Íslandi var 77 milljón króna rekstrartap á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 59 milljónir króna rekstrarhagnað í fyrra. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að einskiptiskostnaður á Íslandi hljóðaði upp á 100 milljónir króna vegna skipulagsbreytinga.

Gengislækkun bætir framistöðuna

Í verðmatinu er vakin athygli á, varðandi reksturinn í Færeyjum, að gengi íslensku krónunnar var 8,7 prósent veikara að meðaltali á fyrsta ársfjórðungi 2021 en á sama tíma árið áður. „Þannig var verulegur rekstrarbati í Færeyjum en heldur minni í dönskum krónum en í íslenskum,“ segir í verðmatinu.

Sala Skeljungs á eldsneyti dróst saman um 3,3 prósent á milli ára. Til samanburðar var samdrátturinn 8,4 prósent hjá N1. „Tæplega 40 prósent af sölu eldsneytis [hjá Skeljungi] var í Færeyjum í fyrra og því salan meiri í íslenskum krónum þegar gengi krónunnar veikist,“ segir Jakobsson Capital.

Samdráttur hjá Basko

Í verðmatinu segir að þótt tekið sé tillit til gengisveikingar virðist samdrátturinn í krónum talið hafi verið örlítið minni hjá Skeljungi en N1. „Eldsneytishlutinn virðist því hafa komið þokkalega út enda var góður fyrsti ársfjórðungur hjá N1 og Olís. Greinandi stoppaði hins vegar við sölu á öðrum vörum.“

Sala á örðum vörum dróst saman um 6,5 prósent á milli ára eða 152 milljónir króna. „Það kemur svo sem ekkert sérstaklega á óvart. Hér er það fyrst og fremst Basko sem er inn í öðrum tekjum. Basko varð hluti af rekstri árið 2019 og því tölur nú samanburðarhæfar milli ára. Það kom fljótlega í ljós í fyrra að afkoma Basko var mjög háð sveiflum í ferðaþjónustu. Sala þægindaverslana þar sem hluti er tengdur neti bensínstöðva er væntanlega þungur. Líklega mun fækka stoppum innlendra viðskiptavina með orkuskiptum, þótt hvert stopp gæti orðið lengra. Það getur verið að tvíeggja sverð að treysta um of á ferðaþjónustuna. Væntanlega tengjast skipulagsbreytingar, endurskipulagningu á bensínstöðvum,“ segir í verðmatinu,