Jakobsson Capital metur Síldarvinnsluna á 118 milljarða króna og gengi bréfanna á 70 krónur á hlut. Útboðsgengið er 55 til 58 krónur á hlut. Verðmatið er því 21 til 27 prósent hærra en útboðsgengið. Þetta kemur fram í verðmati sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Útboð í næstu viku

Horft er til þess að selja 26 til 29 prósenta hlut í félaginu dagana 10. til 12. maí í aðdraganda skráningar í Kauphöllina. Stærstu hluthafarnir, Samherji og Kjálkanes, munu hvor um sig selja tólf prósenta hlut í útboðinu. Samherji á 45 prósenta hlut og Kjálkanes 34 prósenta hlut.

Í verðmatinu segir að kynslóðaskipti séu að eiga sér stað í sjávarútvegi og einhverjir hluthafar horfi væntanlega til þess að búa til seljanleika og virka verðmyndun á eignum sínum.

Síldarvinnslan er þriðja stærsta útgerðin landsins, á eftir Brim og Samherja, miðað við kvótaeign þess. Brim á 11,8 prósent af þorskígildistonnum, Samherji níu prósent og Síldarvinnslan 7,7 prósent.

Vel rekin útgerð

Greinandi Jakobsson Capital segir að Síldarvinnslan sé vel rekið fyrirtæki sem sýnt hafi góða ávöxtun í þekktri atvinnugrein.

Raunar er vakin athygli á því í verðmatinu að útgerðin sé betur rekin en gengur og gerist í sjávarútvegi þegar litið sé til hagnaðar útgerðarinnar fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) og hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) sem hlutfall af tekjum.

Hagnaður ársins 2020 var 39,3 milljónir Bandaríkjadala. Arðgreiðslustefna félagsins er að greiða 30 prósent af hagnaði til hluthafa. Arðgreiðslan skal taka mið af því að eiginfjárhlutfall félagsins fari ekki niður fyrir 50% við greiðslu arðsins.

COVID-19 ekki haft veruleg áhrif

„Samkvæmt stjórnendum voru áhrif COVID-19 faraldursins á fjárhag félagsins ekki veruleg árið 2020. Sala uppsjávarafurða gekk vel og olíuverð lágt. Eftirspurn eftir ferskum fiski dróst saman árið 2020 þar sem eftirspurn frá veitingageiranum hrundi á tímabili. Raskanir á flutningum og aukinn flutningskostnaður hafði neikvæð áhrif á framlegð,“ segir í verðmatinu.

Síldarvinnslan veiðir uppsjávarfisk og bolfisk. Á undaförnum árum hefur hún verið að bæta við sig í veiðum á bolfiski en aflaheimildir í uppsjávarfisk eru nálægt því hámarkshlutfalli sem er leyfilegt.

Síldarvinnslan og dótturfélög þess gera út þrjú uppsjávarskip og fimm bolfiskskip. Félagið fær afhent nýtt uppsjávarskip, Börkur NK 12, í maí og mun í framhaldinu selja Börk eldri.

Í verðmatinu segir að uppsjávarskipakostur félagsins verði þá að meðaltali um tíu ára gamall. Félagið eigi fimm bolfiskskip sem séu að meðaltali 23 ára gömul. „Tvö bolfiskskip félagsins eru komin vel til ára sinna og er líklegt að félagið muni skipta þeim tveimur út fyrir eitt nýtt bolfiskskip á næstu árum.“

Greinandi Jakobsson Capital segir að mikilvægt sé fyrir félagið að fjárfesta í nýjum skipum sem lækki rekstrarkostnað og auki skilvirkni við veiðar ásamt því að huga að fjárfestingum í landvinnslu sem gefi hærra afurðaverð.