Jakobsson Capital verðmetur Play á 31 krónu á hlut sem þýðir að virði lággjaldaflugfélagsins sé 21 milljarður króna. Verðmatið er 55 til 72 prósentum hærra en útboðsgengið sem er 18 til 20 krónur á hlut. Í verðmatinu er gert ráð fyrir hægari tekjuvexti en stjórnendur Play gera í sínum áætlunum. Bent er á að mörg flugfélög hafi orðið að auka við skuldsetningu sína til að lifa af COVID-19 heimsfaraldurinn. Til að standa straum af lántökum gætu þau orðið að hækka verð. Play hefji hins vegar starfsemi með hreint borð.

Play stefnir á að selja 32 prósenta hlut í félaginu og afla 33-36 milljóna Bandaríkjadala, jafnvirði 4 til 4,4 milljarða króna, dagana 24. og 25. júní í aðdraganda skráningar á First North-hliðarmarkað Kauphallarinnar.

Ef miðað er við áætlanir stjórnenda Play, sem eru nokkuð brattar að sögn höfundar verðmatsins en þeir reikna með hraðari tekjuvexti en hjá WOW air, væri verðmatsgengið 52,3 krónur á hlut. Í verðmatinu, sem Markaðurinn hefur undir höndum, segir að samanburður við vöxt WOW air á upphafsárunum sé ekki fyllilega sanngjarn enda sé landið orðið mun vinsælli áfangastaður fyrir ferðamenn en þegar WOW air hóf starfsemi. Því verði vöxtur Play hraðari en WOW air.

Í fjárfestakynningu Play kemur fram að gert sé ráð fyrir að rekstrarhagnaðarhlutfall (EBIT-hlutfall) félagsins verði 10,3 prósent til 13,9 prósent á árunum 2023-2025. Jakobsson Capital þykir það metnaðarfullt. „Til samanburðar hefur Icelandair aðeins einu sinni náð um og yfir 10 prósent EBIT frá árinu 2012 og WOW einnig,“ segir í verðmatinu.

„Til þess að ná þessu EBIT-hlutfalli þarf allt að ganga upp hjá félaginu, ferðaþjónustan að taka hratt við sér, samkeppnin ekki úr hófi, olíuverð stöðugt sem og íslenska krónan. Þá eru einnig ýmsir óvæntir kostnaðarþættir og flækjustig sem koma í ljós þegar félagið vex hratt í að vera með flota sem telur um helming af stærð Icelandair í dag,“ segir Jakobsson Capital.

Í verðmatinu eru taldir upp nokkrir þættir sem muni að líkindum halda aftur af rekstrarhagnaðarhlutfalli og tekjuvexti hjá Play: samkeppni muni þrýsta verði niður, vaxandi launaþrýstingur, styrking krónu, hækkun leiguverðs flugvéla og hærra verð á þotueldsneyti.

Greinandi Jakobsson Capital segir að þrátt fyrir gagnrýni frá verkalýðsforystunni um að launakjör Play séu forkastanleg hafi verið ásókn í störf hjá lággjaldaflugfélaginu. Ekkert bendi til þess að félagið sé að snuða starfsmenn, eins og segir í verðmatinu. Hvernig samið hafi verið við starfsmenn veiti Play samkeppnisforskot miðað við innlenda keppinauta. Að sama skapi hefur nokkur fjöldi fólks þegar hlotið þjálfun á þær flugvélar sem Play hyggst nota sem spari þjálfunarkostnað.

„Félagið er með starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði en sá vinnumarkaður getur fljótt farið í þenslu eins og dæmin sýna,“ segir í verðmati Jakobsson Capital.