Jakobsson Capital verðmetur Eimskip á 484 krónur á hlut en markaðsgengið er nú 446, samkvæmt Keldunni. Verðmatið er því níu prósentum yfir markaðsverði.

Þegar verðmat var birt í gær var markaðsgengið 470 krónur á hlut og verðmatið því þremur prósentum yfir markaðsgengi.

Afkoma Eimskips í kjölfar þriðja ársfjórðungs var yfir væntingum Jakobsson Capital. Tekjur voru örlítið hærri en greiningarfyrirtækið reiknaði með og rekstrarhagnaðarhlutföll nokkuð betri en ráð var gert fyrir. Afkoma ársins í ár stefnir í að verða nokkuð hærri en seinasta rekstrarspá Jakobsson Capital gerði ráð fyrir. „Mikill rekstrarbati hefur verið hjá Eimskip síðastliðið ár og á sama tíma hafa markaðsaðstæður verið hagfelldar,“ segir í verðmati Jakobsson Capital sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Eimskip hefur á einu ári hækkað um 119 prósent.

Fram kemur í verðmatinu að Eimskip hafi staðið í umfangsmiklum hagræðingaraðgerðum sem séu farnar að bera ávöxt. Rekstrarkostnaður og launakostnaður hafi dregist talsvert saman sem hlutfall af tekjum.

Markaðsaðstæður einnkast af umfram eftirspurn og í kynningu kemur fram að Eimskip hafi ekki náð að anna eftirspurn. „Þótt að áhrifin af aukinni eftirspurn séu góð á verð er ljóst að það eru einnig neikvæð áhrif á langtíma viðskiptasambönd ef ekki næst að þjónusta viðskiptavini. Líkur eru á að þegar ástandið á markaði færist í eðlilegt horf muni „margínan“ dragast saman en stjórnendur telja þó að magn geti aukist móti þegar auðveldara verður að bregðast við eftirspurn heldur en nú,“ segir í verðmatinu.

Eimskip hefur á einu ári hækkað um 119 prósent. „Þróun hlutabréfaverðs Eimskips er á margan hátt eins og Shanghai Conteinerized Freight Index og hefur verð hlutabréfa margfaldast líkt og vísitalan,“ segir í verðmatinu. „Verðmatsgengi er nú í línu við markaðsgengi og hefur Shanghai vísitalan hætt að hækka. Fjárfestum er bent á að núverandi ástand á flutningamarkaði varir ekki endalaust. Teikn eru á því að stöðugleiki sé að myndast á flutningamarkaði og hafði forstjóri Eimskips orð á því. Verðmat Jakobsson tekur mið af því að tekjur muni minnka á næstu tveimur árum og er því ekki búist við lækkunum á verðmati þótt tekjur dragist saman í samræmi við spá.“

Mikill viðsnúningur hefur verið á rekstri Eimskips síðastliðið ár. Tekjur hafa aukist um vel rúmlega 27 prósent milli ára. EBIT skipaflutninga, það er að segja hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta, margfölduðust milli ára. Í fyrra var EBIT skipaflutninga 1,2 milljónir evra eftir níu mánuði en í ár var EBIT skipaflutninga 23,9 milljónir evrur eftir níu mánuði.

Tekjur skipaflutninga jukust um 21,7 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 samborið við sama tíma í fyrra. Flutningskostnaður frá Asíu hefur margfaldast undanfarið. Kemur það fram í tekjum skipaflutninga Eimskips í ár. „Skortur hefur verið á gámum og flutningaskipum sem hefur ýtt verði upp og má rekja stærstan hluta tekjuaukningar til hækkandi verðs skv. fjárfestakynningu. Flutt magn jókst um 4 prósent á fyrstu 9 mánuðum ársins 2021 samanborið við sama tíma í fyrra. Nýting flutningaskipa var betri en hún hefur verið í langan tíma samfara auknu magni. Skip sem koma að vestan frá Bandaríkjunum eru nú betur nýtt en áður og má m.a. skýra afkomubata skipaflutninga vegna þess.“