Verðmæti sameinaðs félags Kviku banka, TM og Lykils er um 81,7 milljarðar króna, eða sem jafngildir genginu 17,6 krónum á hlut, en lækkun fjármögnunarkjara Lykils verður lykilþáttur í að ná fram áætlaðri samlegð upp á 1.200 til 1.500 milljónir króna.

Þetta er niðurstaða grunnsviðsmyndar verðmatsgreiningar markaðsviðskipta Landsbankans, sem var send á útvalda viðskiptavini þann 29. desember síðastliðinn og Markaðurinn hefur undir höndum, en þar segir að verðmatsbilið sé 13,6 til 20,9 krónur á hlut.

Þegar verðmatið var gefið út stóð gengi Kviku í 15,65 krónum á hlut en hefur síðan hækkað nokkuð og var 17,4 krónurvið lokun markaða í gær. Samkvæmt samrunasamningi félaganna, sem stjórnir þess samþykktu í lok nóvember, mun TM færa vátryggingarstarfsemi yfir í félagið TM tryggingar og í kjölfarið fer fram þríhliða samruni Kviku, TM og Lykils. TM tryggingar verða eftir það dótturfélag sameinaðs fyrirtækis.

Fram kemur í verðmatinu að jákvæð áhrif sameiningar Kviku og Lykils, tveggja banka, séu „nokkuð augljós“ en hins vegar er bent á að „sameining banka og tryggingafélags af sömu stærð sé ekki algeng og samlegðaráhrifin, bæði í kostnaði og tekjum, hvorki auðfundin né framkvæmanleg að okkar mati.“

Stjórnendur félaganna hafa sagt að mestu samlegðaráhrifin muni felast í hagkvæmari fjármögnun. Í verðmati Landsbankans er nefnt að í ljósi þess hversu ólík skuldahlið TM og Kviku/Lykils sé, þá muni sú hagkvæmni felast í stýringu á fjármögnun eignasafns Kviku og Lykils. „Samlegð í því að hafa bankastarfsemi og tryggingastarfsemi í sömu samstæðu liggur fyrst og fremst tekjumegin, það er í kross-sölu og „on-boarding“ viðskiptavina,“ segir í verðmatinu.

Eigið fé sameinaðs félags, samkvæmt verðmatinu, er 55,5 milljarðar en án viðskiptavildar verður það 34,2 milljarðar. Heildareignir eru taldar verða um 214 milljarðar og lánasafnið um 68 milljarðar.

Fyrir Kviku eru kostir samrunans sagðir vera þeir að lánabókin stækki verulega, sem veldur því að möguleiki sé fyrir bankann að taka þátt í stærri lánaákvörðunum – upp á milljarð eða meira – sem hafi ekki áhrif á stórar einstakar áhættur á efnahagsreikningnum.

Í verðmatinu er áætlað að undirliggjandi hagnaður á þessu ári verði 4,4 milljarðar – án tillits til samlegðar og kostnaðar við sameiningu – og að hægt verði að endurfjármagna óhagstæða skuldabréfaflokka Lykils í takt við fjármögnunarkostnað Kviku. Það geti skilað sér í um 900 milljóna króna sparnaði. Þá er nefnt að hægt sé að fækka stöðugildum í bakvinnslu ásamt sparnaði í húsnæði, leyfisgjöldum og öðrum föstum kostnaði auk hagræðis í því að reka eina kennitölu í stað tveggja. Talið er að þetta geti mögulega skilað samtals um 450 milljóna sparnaði.

Þá segir í verðmatinu að umfram eigið fé, án þess að tekið sé tillit til áhrifa sameiningar félaganna, geti numið að hámarki 6,5 milljörðum. Vegna óvissu um áhrifin og tvítalningar er þetta umfram eigið fé því metið á 3,2 milljarða.

Kaupaukagreiðslur til starfsmanna Kviku í formi áskriftarréttinda hafa áhrif að fjárhæð 2,7 milljarðar króna til lækkunar, samkvæmt verðmatinu.