Verðmat Landsbankans á Kviku er 21 prósenti hærra en markaðsvirðið var við opnun markaðar í gær. Verðmatsgengið er 28,9 krónur á hlut. Horfur í rekstri eru „jákvæðar“ og bankinn á mikla möguleika í samkeppni, segir í verðmati sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Hagnaður Kviku á öðrum ársfjórðungi var 4,1 milljarður sem er langt umfram spá Landsbankans og í verðmatinu er sagt að líklega hafi það verið „vel umfram áætlun stjórnenda“.

Í lok annars ársfjórðungs hafði Kvika veitt áskriftarréttindi að tæpum 296 milljónum hluta eða 6,2 prósentum af hlutafé félagsins þá. Innlausnartímabil meirihluta þeirra hófst í gær. Við það myndast áhyggjur af því að stór hluti réttindanna verði innleystur og bréfin seld í kjölfarið. „Þó slík framboðsaukning geti haft áhrif til skamms tíma þá teljum við lækkun á hlutabréfaverði Kviku vegna þeirra eingöngu tækifæri fyrir fjárfesta,“ segir í verðmati Landsbankans.