Greinendur Capacent hafa lækkað verulega verðmat sitt á Eimskip vegna áhrifa kórónaveirunnar og spá yfir fimmtungssamdrætti í tekjum félagsins í ár. Á móti segja þeir gengisveikingu krónunnar vinna með félaginu.

„Ólíkt Icelandair er ljóst að vöruflutningar munu ekki leggjast af en röskun verður líklega umtalsverð. Samdráttur verður í flutningum vegna samdráttar í framleiðslu og minni eftirspurnar. Bæði hér á Íslandi og erlendis,“ segir í nýju verðmati Capacent sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Sérfræðingar ráðgjafafyrirtækisins meta nú gengi hlutabréfa í Eimskip á 184 krónur á hlut en til samanburðar stóð það í 126 krónum á hlut þegar markaðir opnuðu í morgun. Í evrum talið hefur verðmatið lækkað um 22 prósent frá síðasta mati í janúar síðastliðnum en í íslenskum krónum hefur verðmatið hins vegar lækkað um þrettán prósent.

Líkt og gildir um allar rekstraráætlanir skráðra félaga hefur Capacent ýtt rekstraráætlun Eimskips til hliðar vegna heimsfaraldursins. Rekstraráætlun félagsins fyrir þetta ár, sem nú hefur verið felld úr gildi, gerði ráð fyrir að EBITDA - afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta - yrði jákvæð á bilinu 51 til 58 milljónir evra.

Greinendur Capacent horfa fremur til EBIT - rekstrarhagnaðar - og spá því að rekstrartap félagsins verði 9,1 milljón evra, jafnvirði ríflega 1,4 milljarða króna, í ár. Það yrðu neikvæð umskipti upp á 25 milljónir evra.

Að raunvirði er gert ráð fyrir rúmlega 23,5 prósenta samdrætti í tekjum í ár. Auk þess er gert ráð fyrir kostnaði vegna röskunar í starfsemi en á móti komi rúmlega tíu prósenta gengisveiking sem vinnu með félaginu.

„Það er ekki gert ráð fyrir að hjól atvinnulífsins verði farin að snúast að fullu árið 2021. Tekjur verða því fjórum prósentum lægri árið 2021 en árið 2019. Eimskip verður aftur komið á þann feril sem það var á árið 2022,“ segir í verðmati Capacent.

Samkvæmt rekstraráætlun er gert ráð fyrir að kórónaveiran „fresti“ ábata af hagræðingu og endurskipulagningu í rekstri um rúmlega tvö ár og vaxandi arðbærni í rekstri fari ekki að gæta fyrr en árið 2023.