Erlend greiðslukortavelta innanlands í sumar var 66 prósent af því sem hún var árið 2019, samkvæmt nýbirtum tölum frá Seðlabankanum.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segir að það séu ánægjuleg tíðindi. „Þetta staðfestir það sem við höfum fundið sterklega fyrir í sumar, að verðmæti á hvern ferðamann eru töluvert meiri en í meðalári,“ segir hann.

Jóhannes Þór segir að það sé ekki ljóst hvernig þau verðmæti dreifist yfir greinina þar sem um sé að ræða minna en þriðjung af fjölda ferðamanna 2019. „Fram undan er töluverð óvissa í vetur nú þegar háönninni lýkur, ekki síst varðandi það hvort tekjuöflun stuttrar sumarvertíðar mun duga fyrirtækjum til að greiða af lánum sínum, greiða fastan kostnað og halda starfsfólki í vinnu yfir vetrarmánuðina. Það er því mjög mikilvægt að stjórnvöld skoði framlengingu ráðningarstyrkja sem hafa reynst mjög mikilvægir, og eins með hvaða hætti má vinna bug á ósjálfbærri skuldastöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja í greininni,“ segir hann.

Jóhannes segist taka undir það sem forsvarsmenn Icelandair og Isavia hafi sagt um mikilvægi þess að slakað verði á á ferðatakmörkunum á landamærum til samræmis við það sem tíðkast í nágranna- og samkeppnislöndum okkar.