Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra segir útboð Íslandsbanka hafa farið fram úr væntingum. Ríkið hafi fengið gott verð, þátttaka almennings hafi verið í methæðum og áhugi erlendra fjárfesta hafi verið meiri en gera mátti ráð fyrir. Þá segir hann að gagnrýni á söluferlið sé áminning um mikilvægi stefnufestunnar sem þarf til að klára mál af þessum toga.

„Það er óhætt að segja að útboðið hafi farið fram úr þeim væntingum sem við höfðum þegar ferlið hófst seint á síðasta ári. Síðan þá hefur margt fallið okkur í hag,“ segir Bjarni í samtali við Fréttablaðið.

„Við höfðum nokkur markmið, einkum að fá gott verð fyrir hlutinn, dreift eignarhald og þátttöku almennings. Útboðið var sérstaklega hannað með það í huga og þegar upp er staðið erum við að ná öllum okkar helstu markmiðum.“

Eftirspurn í nýafstöðnu hlutafjárútboði Íslandsbanka, sem lauk á hádegi í fyrradag, reyndist vera samtals 486 milljarðar króna og umframeftirspurn eftir bréfum bankans var því níföld.

Þá verður fjöldi hluthafa eftir útboðið um 24 þúsund talsins, sem er mesti fjöldi hluthafa allra skráðra fyrirtækja á Íslandi. Ein ástæðan fyrir metþátttöku í útboðinu var sú að lágmarksupphæðin sem almennir fjárfestar gátu skráð sig fyrir, 50 þúsund krónur, hefur aldrei verið eins lág í hlutafjárútboðum eftir fjármálahrunið.

Í byrjun árs, þegar ljóst var að eignarhlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka yrði boðinn út, voru áformin gagnrýnd af þingmönnum í stjórnarandstöðu, einkum Samfylkingunni, og sérfræðingum sem töldu óheppilegt að selja bankann á „undirverði“ í djúpri efnahagslægð.

„Þetta er þörf áminning um að það þurfi stefnufestu til að ljúka svona málum. Það verða alltaf einhverjar úrtöluraddir og sumir hanga á hliðarlínunni, bíða eftir að eitthvað fari úrskeiðis og reyna að telja úr mönnum kjarkinn. En með því að undirbúa sig vel, hafa trú á að þetta geti tekist og vera með allt uppi á borðum – við lögðum mikla áherslu á gegnsæi í ferlinu – gátum við klárað málið,“ segir Bjarni, spurður hvort gagnrýni á útboðið hafi elst vel.

„Það verða alltaf einhverjar úrtöluraddir og sumir hanga á hliðarlínunni, bíða eftir að eitthvað fari úrskeiðis og reyna að telja úr mönnum kjarkinn.“

Útboðsgengið endaði í 79 krónum á hlut, sem jafngildir genginu um 0,85 miðað við bókfært eigið fé Íslandsbanka í lok fyrsta ársfjórðungs.

„Það er útilokað að við hefðum fengið sama verð fyrir ári síðan,“ segir Bjarni, spurður hvort verðið hafi verið ásættanlegt fyrir ríkissjóð.

„Það er vandasamt verk að stilla verðbilið. Það var ákveðið eftir langt ferli og speglast í verði fjármálafyrirtækja innanlands sem erlendis. En verðlagningin er líka hugsuð til þess að vekja áhuga og fá menn að borðinu, og mér finnst það hafa tekist vel.“

Í kjölfar útboðsins mun ríkissjóður fara með 65 prósenta eignarhlut í Íslandsbanka. Gera má ráð fyrir að aðrir innlendir fjárfestar fari með um 24 prósenta hlut og erlendir fjárfestar með um 11 prósent.

„Ég hafði veika von um áhuga að utan. Í upphafi ferlisins virtist það frekar fjarlægt en niðurstaðan er sú að talsverður áhugi kom frá erlendum fjárfestum,“ segir Bjarni.

Tveir erlendir fjárfestingarsjóðir, Capital World Investors og RWC Asset Managament, voru hornsteinsfjárfestar í útboðinu ásamt íslensku lífeyrissjóðunum Gildi og LIVE. Aðrir erlendir fagfjárfestar tóku þátt í lokuðu útboði.

Ríkissjóður hefur skuldbundið sig til að selja ekki frekari hluti í bankanum í sex mánuði eftir að bréfin verða tekin til viðskipta á markaði.

Hefur komið til tals að gert verði hluthafasamkomulag til að gefa nýjum hluthöfum vægi í stjórn bankans?

„Ég held að það sé jákvætt að eiga í samstarfi við hluthafa um samsetningu stjórnarinnar. Við viljum fyrst og fremst fá hæfa einstaklinga í stjórn bankans,“ segir Bjarni.

Að því gefnu að valréttir verði nýttir að fullu mun ríkið fá 55,3 milljarða króna í sinn hlut fyrir 35 prósenta hlut í bankanum. Upphæðin kemur sér vel, að sögn Bjarna, í ljósi þess að ríkissjóður er um þessar mundir rekinn með miklum halla.

„Hafa þarf í huga að ef ríkið er of fyrirferðarmikið á innlendum skuldabréfamarkaði getur það haft áhrif á vaxtastig heimila og fyrirtækja. Í því samhengi er þetta mjög mikilvægt,“ segir Bjarni.

Hvernig sérðu fyrir þér næstu skref, að því gefnu að næsta ríkisstjórn vilji halda áfram að selja eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka?

„Við eigum að láta þetta útboð vera hvatningu til að hafa augun opin fyrir frekari tækifærum til að losa um eignarhlut ríkisins að fullu. Ef aðstæður á næsta ári leyfa er ekki eftir neinu að bíða. Til lengri tíma litið sé ég fyrir mér að ríkið skrái Landsbankann sömuleiðis á markað en verði áfram meirihlutaeigandi.“

Fjöldi hlutabréfaeigenda margfaldast

Til að setja þátttökuna í útboði Íslandsbanka í samhengi – sem fyrr segir var fjöldi hluthafa eftir útboðið um 24 þúsund talsins – má nefna að fjöldinn sem tók þátt í útboðinu var um þrefalt meiri en fjöldi þeirra einstaklinga sen áttu skráð hlutabréf í lok árs 2019.

Fjöldi einstaklinga sem átti hlutabréf í lok árs 2019 var tæplega 9 þúsund. Hann hafði vaxið í tæplega 17 þúsund í lok síðasta árs og ríflega 21 þúsund í lok maí.

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir mikinn áhuga almennings í útboði Íslandsbanka vera ánægjulegan og sýna traust á bankanum.

„Hann veit líka á gott fyrir möguleika íslenskra fyrirtækja til að fjármagna sig á hlutabréfamarkaðnum og þar með möguleika þeirra til að skapa störf og knýja vöxt. Þá verða skoðanaskipti á markaðnum virkari sem gerir hann meira aðlaðandi fyrir aðra fjárfesta, þar með talda erlenda fjárfesta,“ segir Magnús.