Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að ný drög að reglugerð sem feli í sér að fyrirtækjum verði skylt að bjóða upp á ókeypis tíðavörur og ókyngreind salerni geti leitt af sér mikinn kostnað fyrir fyrirtækin.

„Við lítum á það sem okkar hlutverk að gagnrýna það þegar embættismenn koma með hugmyndir, oft í þágu fallegra markmiða, sem fela aftur á móti í sér mikinn kostnað fyrir fyrirtækin,“ segir Ólafur og bætir við að þó sé að finna ýmislegt gott í reglugerðinni.

„Það er verið að einfalda regluverkið, fækka greinum og stytta. Það er jákvætt. En það má þó gagnrýna þessar nýju kvaðir sem lagt er til að setja á fyrirtækin, annars vegar að bjóða upp á ókeypis tíðavörur og hins vegar skikka þau fyrirtæki sem bjóða upp á kyngreind klósett að bjóða einnig upp á klósett fyrir önnur kyn. Þessar aðgerðir væru gífurlega kostnaðarsamar fyrir fyrirtækin. Þau þurfa að kaupa inn vörur og jafnvel gera mjög kostnaðarsamar breytingar á eldra húsnæði. Fyrir svona breytingum þarf að vera skýr lagastoð og við höfum ekki fundið hana.“

Ólafur bætir við að nú þegar séu ýmis fyrirtæki sem bjóða upp á þessa valkosti.

„Það eru mörg fyrirtæki sem bjóða upp á ókeypis tíðavörur og ókyngreind salerni. Það er þeirra val. En okkur finnst of langt gengið að ríkið sé að skipta sér af þessu og leggja dýrar skyldur á rekstraraðila. Margir embættismenn reka upp stór augu þegar þeim er bent á að svona breytingar feli í sér kostnað. Það er mögulega vegna þess að þeir þekkja ekki fyrirtækjarekstur og átta sig ekki á að þessar breytingar kosta.“