Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, segir það ekki tækt að taka eina starfsgrein út fyrir sviga og hækka starfslokaaldurinn.

Samkvæmt frumvarpi Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra stendur til að heimila heilbrigðisstofnunum að ráða fólk á aldrinum 70 til 75 ára. Ástæðan er mönnunarvandi heilbrigðisstofnana.

Landssambandið er almennt séð hlynnt því að starfslokaaldur verði hækkaður. Eða réttara sagt að reglurnar um hann séu einfaldlega lagðar af.

„Við viljum alls ekki hafa nein ákvæði um starfslokaaldur í lögum, hvorki hámörk um 67 né 70 ára aldur. Þetta á fyrst og fremst að vera samningsatriði milli þess sem vinnur og þess sem vill hafa fólk í vinnu,“ segir Helgi.

Að sögn Helga sé það hins vegar til marks um losarahátt stjórnvalda að gera sérreglur fyrir ákveðnar starfsgreinar, byggt á hentugleik hverju sinni. Til dæmis séu oft gerðir verktakasamningar við lækna eftir að þeir ná 70 ára aldri.

Frumvarpið var lagt fram í sumar til þess að mæta mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu. Samkvæmt núgildandi lögum á að segja upp ráðningarsamningum við alla starfsmenn ríkisins mánaðamótin eftir 70 ára afmælisdaginn. Með frumvarpinu verður það áfram gert, en heimilt verður að gera nýja ráðningarsamninga við fólk til 75 ára aldurs.

Margir hafa óttast að lífeyrisgreiðslur verði skertar við þessa breytingu. Það er, að eldri borgarar verði notaðir sem ódýrt vinnuafl þar sem ekki þurfi að greiða í lífeyrissjóð þeirra.

Í umsögnum stéttarfélaga við frumvarpið, það er Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Ljósmæðrafélags Íslands, Læknafélags Íslands, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna og fleiri, er áréttað að útkljá þurfi lífeyrismálin áður en frumvarpið verði að lögum.

„Samkvæmt núgildandi lögum ber atvinnurekendum aðeins skylda til að greiða í lífeyrissjóð fyrir starfsfólk til sjötugs og samkvæmt núverandi samþykktum LSR tekur sjóðurinn ekki við greiðslum frá félagsfólki eftir þann aldur,“ segir í umsögn Bandalags háskólamanna.

Helgi tekur undir þetta og segist óttast að lífeyrisréttindin verði skert. Reynslan sýni það.

„Ef vilji er fyrir hendi til þess að fá eldra fólk til starfa þá verður að koma til móts við það eins og gert er í siðuðum löndum,“ segir Helgi.

Bendir Helgi á að í Noregi sé hægt að starfa skattfrjálst fyrir miklu hærri upphæð en hér leyfist. Það verði að vera bitastætt fyrir eldra fólk að fresta starfslokum sínum eða að koma til starfa á nýjan leik.