Það eru blikur á lofti í rekstrarumhverfi flugfélaga. Eldsneytisverð hefur hækkað mikið í kjölfar stríðsins í Úkraínu. Staðan í dag bætist svo ofan á áföll í rekstrinum árin á undan.
Heimsfaraldurinn lék flugfélög grátt og hafði mikil áhrif á ferðaþjónustu og farþegaflutninga um allan heim. Útlit er fyrir enn meiri hækkanir og verðbólgu á þessu ári og ljóst að næstu mánuðir verða krefjandi í greininni.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir ljóst að þessi þróun sé í gangi um allan heim. „Kostnaður er að hækka og verðbólga að aukast á öllum okkar helstu mörkuðum.“ Bogi segir ljóst að þetta muni ekki ganga svona til lengdar. Kostnaðarhækkanir muni á endanum velta út í verðlagið og hafa í för með sér hækkanir hjá flugfélögum. Það eigi við um Icelandair eins og önnur flugfélög.
„En við þurfum að vera varkár. Það hefur alltaf áhrif á eftirspurn ef verð hækkar mikið og við þurfum að finna eitthvert jafnvægi. Þessar hækkanir á verði eldsneytis hafa verið alveg gríðarlegar. Nær allir kostnaðarliðir hafa hækkað en ekkert í líkingu við hækkanir á eldsneyti, sem hafa numið tugum prósenta.“
Að mati Boga er það eðli flugrekstrar að þurfa stöðugt að bregðast við sveiflum og endurmeta áætlanir. Icelandair birti afkomuspá í febrúar síðastliðnum, í tengslum við uppgjör síðasta árs. Markmið stjórnenda félagsins þá var að skila hagnaði á árinu 2022.
„En síðan hefur ýmislegt gerst. Bókunarstaðan er vissulega góð fyrir sumarið en óvissan fyrir síðari hluta ársins er bara of mikil til þess að við treystum okkur til að spá fyrir um afkomu ársins eins og sakir standa. En þetta eru bara þær aðstæður sem við búum við og höfum ekki stjórn á,“ segir Bogi.
Síðan stríðið braust út í Úkraínu hafa flugfélög brugðist við breyttum aðstæðum með því að hagræða í flugáætlunum sínum.
Það hefur gerst mun hraðar en áður tíðkaðist. Framboð á flugferðum til og frá Íslandi hefur til að mynda aukist hratt. Það er þegar orðið meira en það var árið 2019. Bogi Nils segir þetta mjög óvenjulegt. Flugfélög hafi alltaf verið mjög kvik í sinni stýringu en aldrei eins og nú.
„Þetta gerir það líka að verkum að það er mjög erfitt að spá fyrir um þróunina. Við erum að sjá viðtöl við forstjóra stórra flugfélaga í Bandaríkjunum sem segjast ekki sjá nema tvo til þrjá mánuði fram í tímann. Það segir manni heilmikið um óvissuna í greininni.“