Það eru blikur á lofti í rekstrar­um­hverfi flug­fé­laga. Elds­neytis­verð hefur hækkað mikið í kjöl­far stríðsins í Úkraínu. Staðan í dag bætist svo ofan á á­föll í rekstrinum árin á undan.

Heims­far­aldurinn lék flug­fé­lög grátt og hafði mikil á­hrif á ferða­þjónustu og far­þega­flutninga um allan heim. Út­lit er fyrir enn meiri hækkanir og verð­bólgu á þessu ári og ljóst að næstu mánuðir verða krefjandi í greininni.

Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Ice­landair, segir ljóst að þessi þróun sé í gangi um allan heim. „Kostnaður er að hækka og verð­bólga að aukast á öllum okkar helstu mörkuðum.“ Bogi segir ljóst að þetta muni ekki ganga svona til lengdar. Kostnaðar­hækkanir muni á endanum velta út í verð­lagið og hafa í för með sér hækkanir hjá flug­fé­lögum. Það eigi við um Icelandair eins og önnur flug­fé­lög.

„En við þurfum að vera var­kár. Það hefur alltaf á­hrif á eftir­spurn ef verð hækkar mikið og við þurfum að finna eitt­hvert jafn­vægi. Þessar hækkanir á verði elds­neytis hafa verið alveg gríðar­legar. Nær allir kostnaðar­liðir hafa hækkað en ekkert í líkingu við hækkanir á elds­neyti, sem hafa numið tugum prósenta.“

Að mati Boga er það eðli flug­rekstrar að þurfa stöðugt að bregðast við sveiflum og endur­meta á­ætlanir. Icelandair birti af­komu­spá í febrúar síðast­liðnum, í tengslum við upp­gjör síðasta árs. Mark­mið stjórn­enda fé­lagsins þá var að skila hagnaði á árinu 2022.

„En síðan hefur ýmis­legt gerst. Bókunar­staðan er vissu­lega góð fyrir sumarið en ó­vissan fyrir síðari hluta ársins er bara of mikil til þess að við treystum okkur til að spá fyrir um af­komu ársins eins og sakir standa. En þetta eru bara þær að­stæður sem við búum við og höfum ekki stjórn á,“ segir Bogi.

Síðan stríðið braust út í Úkraínu hafa flug­fé­lög brugðist við breyttum að­stæðum með því að hag­ræða í flug­á­ætlunum sínum.

Það hefur gerst mun hraðar en áður tíðkaðist. Fram­boð á flug­ferðum til og frá Ís­landi hefur til að mynda aukist hratt. Það er þegar orðið meira en það var árið 2019. Bogi Nils segir þetta mjög ó­venju­legt. Flug­fé­lög hafi alltaf verið mjög kvik í sinni stýringu en aldrei eins og nú.

„Þetta gerir það líka að verkum að það er mjög erfitt að spá fyrir um þróunina. Við erum að sjá við­töl við for­stjóra stórra flug­fé­laga í Banda­ríkjunum sem segjast ekki sjá nema tvo til þrjá mánuði fram í tímann. Það segir manni heil­mikið um ó­vissuna í greininni.“