Ný­leg könnun Seðla­banka Ís­lands á væntingum markaðs­aðila bendir til þess að væntingar um verð­bólgu hafi minnkað frá síðustu könnun bankans í lok janúar. Nú vænta markaðs­aðilar þess að verð­bólga verði 3,3 prósent á öðrum og þriðja árs­fjórðungi í ár en hjaðni í 3 prósent á fjórða árs­fjórðungi.

Niður­stöður könnunarinnar í janúar gerðu ráð fyrir verð­bólgu upp á 3,6 prósent á fyrsta árs­fjórðungi, sem aukast myndi í 3,7 prósent á öðrum fjórðungi haldast þar út árið.

Nú vænta markaðs­aðilar þess að verð­bólga verði 3 prósent eftir eitt ár og 2,8 prósent eftir tvö ár. Í könnuninni var enginn sem taldi taum­hald peninga­stefnunnar vera of laust um þessar mundir en í fyrri könnun bankans taldi tæpur fjórðungur svo vera. Könnunin í janúar gerði ráð fyrir 3,5 prósent verð­bólgu eftir eitt ár og 3 prósent eftir tvö ár.

Miðað við mið­gildi svara í ný­legri könnun búast markaðs­aðilar við því að megin­vextir bankans lækki í 4 prósent á öðrum árs­fjórðungi í ár og haldist ó­breyttir út fyrsta fjórðung næsta árs. Þeir vænta þess að vextir lækki enn frekar á öðrum fjórðungi næsta árs og verði 3,75 prósent eftir bæði eitt og tvö ár.