Allt bendir til að verðbólgan, sem hefur farið stöðugt hækkandi undanfarna mánuði og mælist nú 4,3 prósent, eigi eftir að ganga hægar niður en væntingar hafa staðið til.

„Mikil hækkun á hrávöruverði, flutningskostnaði og ójafnvægi á mörkuðum mun kynda undir verðbólgu innanlands,“ segir í nýrri greiningu Jakobsson Capital sem Markaðurinn hefur undir höndum. Þar er jafnframt bent á að innflutt verðbólga sé utan áhrifasvæðis Seðlabanka Íslands og bankinn hafi því fá vopn til að bregðast við innfluttri verðbólgu.

Í greiningunni eru rifjuð upp ummæli hagsmunaaðila í fréttum fyrr í þessum mánuði, þar sem því hafi verið haldið fram að álagning smásölufyrirtækja hefði hækkað að undanförnu, sem að mati greinenda Jakobsson Capital standist ekki skoðun þegar litið er til fjárhagsupplýsinga félaganna.

Þannig bendir hann á að framlegðarhlutfall Krónunnar hafi lækkað um 1,5 prósent á milli áranna 2019 og 2020 sem þýði að álagning matvörukeðjunnar hafi dregist saman um liðlega 700 milljónir á tímabilinu. Sama sé uppi á teningnum þegar litið sé til Haga, sem reka meðal annars verslanir undir merkjum Bónuss og Hagkaupa, en þar hefur framlegðarhlutfallið sömuleiðis lækkað.

Í greiningunni segir að á meðal þess sem geti skýrt lækkandi framlegðarhlutfall smásölufyrirtækja, á sama tíma og verðlag hafi hækkað umfram það sem gengissveiflur krónunnar gefa tilefni til, sé að veltuhraði birgða sé mun hægari í fatnaði, raftækjum, húsgögnum og bifreiðum en í samanburði við til dæmis matvöru. „Þannig getur það tekið 3 til 12 mánuði fyrir gengisstyrkingu og gengisveikingu að koma fram í framangreindum flokkum, á meðan það tekur oftast innan við þrjá mánuði í dagvöru.“

Það sem skipti ekki síður máli , að mati greinanda Jakobsson Capital, eru miklar hækkanir á flutningskostnaði vegna faraldursins og almennu hrávöruverði.

Flutningskostnaður frá Kína hefur hækkað um 125 prósent frá því sumarið 2020. „Þótt flutningskostnaður hafi eitthvað lækkað frá því í febrúar mun það líklega ekki hafa áhrif á vöruverð hér heima fyrr en í sumarbyrjun, en nokkur tími líður frá því að vara er flutt með skipi frá Asíu eða Kína þangað til hún fer í hillur verslunar á Íslandi. Sömuleiðis má sjá þá skörpu hækkun sem var í flutningskostnaði í haust sem hefur haft áhrif á verðlag síðustu mánuði,“ segir í greiningunni.

Á það er bent að 28 prósent allrar framleiðslu í heiminum komi frá Kína og því ljóst að meira en tvöföldun flutningskostnaðar hafi áhrif á verð flestra vara sem eru fluttar þaðan. Á meðal þess sem skýrir hækkanirnar sé mikil eftirspurn og ónógt framboð flutningarýmis, auk þess sem umskipunartími jókst mikið í kjölfar þess að flóðgáttir brustu um mitt síðasta ár. Lengri umskipunartími hafi jafngilt því að um fjögur prósent alls skipaflota heimsins hafi verið tekinn úr umferð. Hafnir heimsins geti aðeins afgreitt takmarkað magn í einu og sóttvarnir hægi enn frekar á.

Í greiningunni segir að þetta ójafnvægi á markaðnum geti varað í nokkurn tíma. Flutningskostnaður sé misjafn eftir vöruflokkum, en gróflega áætlað sé hann um 15 prósent af kostnaði innfluttra matvara og um 5 til 10 prósent í fatnaði.

Þá bendir greinandi Jakobsson Capital á að samtímis því að slaknaði á flutningskostnaði fyrr á árinu hafi hrávöruverðið tekið við sér og að verð nær allra hrávara sé nú hærra en fyrir faraldurinn. Alþjóðabankinn spái því að verð á málmum eigi eftir að hækka um 30 prósent og verð á landbúnaðarafurðum, sem hefur ekki verið hærra frá því 2014, um 14 prósent. Hins vegar sé reiknað með því að olíumarkaðir, en verð á bensíni hefur hækkað nokkuð að undanförnu, hafi náð jafnvægi.

Leiðrétting: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að í greiningu Jakobsson Capital hefðu verið rifjuð upp ummæli "forsvarsmanna ASÍ" sem hefðu haldið því fram að álagning smásölufyrirtækja hefði hækkað. Hið rétta er að vísað var til ummæla "hagsmunaaðila."