Gangi spáin eftir verður 12 mánaða verðbólga óbreytt í 6,7 prósentum milli mars og apríl. Landsbankinn spáir því að verðbólgan mun vaxa aðeins fram á mitt ár og gerir þá ráð fyrir 7 prósenta verðbólgu. Upp frá því mun taka við hæg verðbólguhjöðnun. Einnig spáir bankinn því að verðbólga án húsnæðis haldi áfram að vaxa og fari hæst í 5,6 prósent í ágúst áður en hún hjaðnar á ný.

Þeir liðir sem vega langmest til hækkunar verðlags milli mars og apríl eru annars vegar matur og drykkur og hins vegar reiknuð húsaleiga. Samtals skýra þessir liðir um 60 prósent af heildarhækkun verðlags milli mánaða.

Verðbólga í mars reyndist svipuð og við spáðum

Verðbólgan var 6,7 prósent í mars og en spá Landsbankans hafði hljóðað upp á 6,8 prósenta verðbólgu. Þetta var fyrsta mælingin síðan í nóvember þar sem verðbólga reyndist minni en bankinn hafði spáð. Húsnæðisverð hækkaði meira en á móti vó að föt og skór og flugfargjöld hækkuðu minna en við væntum.

Mikil verðbólga erlendis mun skila sér hingað til lands í einhverjum mæli

Verðbólga er í áratuga hámarki í flestum viðskiptalöndum Íslands og er hún til dæmis meiri í Bandaríkjunum en hér á landi. Miklar verðhækkanir á hrávöru á undanförnum ársfjórðungum hafa aukið verðbólgu bæði beint og óbeint. Olíuverð hefur hækkað mikið á síðustu misserum sem hefur bæði hækkað dæluverð á eldsneyti en einnig flutningskostnað sem leggst ofan á vöruverð.

Viðbúið er að þær hækkanir sem orðið hafa á hrávöruverði eftir faraldur en einnig vegna innrásar Rússa í Úkraínu eigi enn eftir að koma að fullu fram í verðbólgu í viðskiptalöndunum. Þessi verðbólguþróun erlendis mun skila í einhverju mæli sér hingað til lands. Að hversu miklu leyti og hvenær mun ráðast að miklu leyti af gengisþróun krónunnar. Hagfræðingar Landsbankans telja að krónan muni styrkjast eitthvað á næstu mánuðum sem mun vega á móti innfluttri verðbólgu.

Verðbólgan mun toppa um mitt ár

Spá bankans til næstu þriggja mánaða er að verðlag hækki áfram á næstu mánuðum. Spáð er 0,5 prósenta hækkun verðlags í maí, 0,5 prósenta hækkun í júní en að verðlag haldist óbreytt milli júní og júlí. Gangi spáin eftir fer verðbólga upp í 7 prósent í júní en lækkar niður í 6,8 prósent í júlí. Sé litið enn lengra fram í tímann búast hagfræðingar bankans við að verðbólga verði komin undir 6 prósent í október en verði enn há í lok árs, eða 5,5 prósent. Verðbólga án húsnæðis var 4,6 prósent í mars en gert er ráð fyrir að hún muni halda áfram að aukast áður en hún hjaðnar á ný. Landsbankinn spáir því að hún nái hámarki í ágúst næstkomandi og verði þá 5,6 prósent en taki að lækka upp úr því og endi árið í 4,8 prósentum.

Óvissa um verðhækkanir á innfluttum vörum

Samkvæmt fréttaflutningi eru smásalar að fá tilkynningar um verulegar verðhækkanir frá innlendum og erlendum birgjum. Ekki er óalgengt að þær hlaupi á tugum prósenta. Þetta á við um til dæmis þá hluta neyslukörfunnar sem snúa annars vegar að mat og drykk og hins vegar að veitingastöðum. Töluverð óvissa ríkir hins vegar um hversu miklar hækkanirnar verða og hvenær þær koma fram í almennu verðlagi hér á landi. Sé horft til síðustu mánaða hefur matur og drykkur í evruríkjum hækkað mun meira milli mánaða en venja er. Þannig hækkaði matvara um 0,8 prósent í desember, 1,1 prósent í janúar og 0,9 prósent í febrúar. Heildarhækkun á verði matvöru yfir þessa 3 mánuði er 2,9 prósent sem er mesta hækkunin síðan árið 2001.

Landsbankinn spáir því að matarkarfan hækki um 1,4 prósent í apríl og má að miklu leyti rekja það til hækkana á heildsöluverði mjólkurvara. Gangi spáin eftir verður 12 mánaða hækkun matvöru 5,3 prósent. Krónan hefur styrkst frá því í mars og gera hagfræðingar bankans ráð fyrir að hún muni styrkjast frekar á næstu mánuðum sem mun vega á móti verðhækkunum á innfluttri matvöru og hrávöru til matargerðar.

Íslandsbanki birti verðbólguspá sína í gær og eru hagfræðingar þar á bæ eilítið svartsýnni en hagfræðingar Landsbankans og búast við toppi verðbólgunnar í júlí þegar verðbólguhraðinn verði 7,7 prósent.