Tólf mánaða verðbólga mælist nú 5,7 prósent en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,5 prósent í janúar á þessu ári. Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar.

Hækkunin er að mestu drifin áfram af hækkandi fasteignaverði en verðbólgan er nú langt umfram það sem greinendur höfðu spáð. Greinendur höfðu gert ráð fyrir því að vísitala neysluverðs myndi lækka í janúar um 0,15 til 0.2 prósent. Verðbólgan mældist um 5,1 prósent í desember.

Í tilkynningu á vef Hagstofunnar kemur fram að kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði um 1,5 prósent, verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 1,3 prósent, rafmagn og hiti hækkaði um 3,7 prósent og verð á nýjum bílum hækkaði um 2,2 prósent.

Verð á fötum og skóm lækkaði um 8,0 prósent og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði lækkaði um 2,7 prósent en víða eru vetrarútsölur í gangi.