Launavísitalan hækkaði um 0,4 prósent milli apríl og maí samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 8,6 prósent sem er mun hærri árstaktur en var fyrstu mánuði ársins.

Árshækkunartaktur launa var rúmlega 7 prósent fyrstu mánuði ársins en hefur nú verið í kringum 8,5 prósent í tvo mánuði. Meginástæða þessarar hækkunar voru launahækkanir sem urðu í apríl vegna hagvaxtarauka.

Kaupmáttur tók stökk upp á við í apríl – en er á leið niður á við

Verðbólga í maí 2022 mældist 7,6 prósent sem er mesta verðbólga sem hefur mælst síðan 2010. Árshækkun launavísitölunnar var hins vegar 8,6 prósent þannig að kaupmáttur launa jókst um 0,9 prósent milli maímánaða 2021 og 2022, þrátt fyrir óvenju mikla verðbólgu. Kaupmáttur í maí var engu að síður 1,5 prósent lægri en hann var í janúar 2022, en þá var kaupmáttur sá mesti í sögunni, þannig að mikil verðbólga síðustu mánaða hefur minnkað kaupmátt töluvert.

Þróun jafnast milli markaða

Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum milli 1. ársfjórðungs 2021 og 2022 sést að laun hafa hækkað eilítið meira á opinbera markaðnum en þeim almenna. Launin hækkuðu um 7,0 prósent á almenna markaðnum á þessum tíma og um 7,5 prósent á þeim opinbera, þar af 7,4 prósent hjá ríkinu og 7,5 prósent hjá sveitarfélögunum.

Launabreytingar hafa því jafnast á milli markaða, en óvenju mikið bil myndaðist á milli launaþróunar á opinbera og almenna markaðnum í upphafi ársins 2021 og er það enn fyrir hendi þó munurinn hafi minnkað síðustu mánuði. Miðað við útgangspunkt í upphafi ársins 2015 hefur hækkun launa verið tæpum 4 prósentustigum meiri á opinbera markaðnum en á þeim almenna.

Nokkuð jöfn þróun meðal starfsstétta

Tvær starfsstéttir skera sig nokkuð úr ef litið er til launabreytinga milli 1. ársfjórðungs 2021 og 2022. Laun verkafólks hafa hækkað mest, um 9,1 prósent, og laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks næst mest, um 7,9 prósent. Laun annarra starfsstétta hafa hækkað í kringum 6 prósent. Á þessu tímabili hækkaði vísitala neysluverðs um 6,2 prósent þannig að kaupmáttur hafði annaðhvort lækkað eilítið eða staðið í stað meðal sumra hópanna.

Launahækkanir starfsstétta á samningstímabilinu

Eitt meginmarkmið gildandi kjarasamninga er að lægri laun myndu hækka meira en laun tekjuhærri hópa. Hlutfallsleg hækkun lægri launa ætti því að vera meiri en þeirra hærri.

Á tímabilinu frá mars 2019 fram til mars 2022, þ.e. tímabil samningstímabilsins fram til þessa, hafa laun starfsstétta hækkað með nokkuð mismunandi hætti.

Verkafólk og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk sker sig nokkuð úr. Laun þessara hópa hafa hækkað í kringum 30 prósent, 30,8 prósent hjá verkafólki og 29,6 prósent hjá þjónustu-, sölu og afgreiðslufólki. Að þessu leyti virðast markmið samningsins hafa náðst þar sem þessir hópar hækka umtalsvert meira en aðrir.

Á lægri endanum hafa laun stjórnenda hækkað minnst, um 16,1 prósent, og laun sérfræðinga næst minnst, um 18,1 prósent. Þetta eru að öllu jöfnu tekjuhærri hópar þannig að laun þeirra ættu að hækka minna sé miðað við ákvæði samningsins.

Átakatímar fram undan?

Um frekari launahækkanir verður ekki að ræða á þessu samningstímabili sem rennur út í lok október á almenna markaðnum. Margir samningar á opinbera markaðnum renna út í lok mars 2023.

Verðbólga er áfram mikil og samkvæmt síðustu mælingu er ársverðbólgan nú 8,8 prósent. Það er því næsta víst að mjög löngu tímabili hækkandi kaupmáttar sé nú lokið.

Miðað við stöðu hagkerfisins og ýmissa utanaðkomandi stærða má ganga út frá því að komandi viðræður um kjarasamninga verði erfiðar og að tiltölulega langt verði á milli hugmynda aðila um mögulegar lausnir.