Í nýjum tölum Hagstofunnar kemur fram að verð á mat og drykkjarvöru hefur hækkað um 1,4 prósent milli mars og aprílmánaðar.

Áhrifin á vísitölu neysluverðs voru 0,20 prósent en þar vega mjólkurvörur mest eða 0,13 prósent. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði um 2,4 prósent og verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 22,9 prósent.

Vísitala neysluverðs hefur hækkað um alls 7,2 prósent á einu ári, en ef húsnæðisliður vísutölunnar er tekinn út fyrir sviga nemur hækkunin 5,3 prósentum.

Greiningdeild Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni tilkynna 0,5 prósentustiga stýrivaxtahækkun á miðvikudaginn í næstu viku. Íslandsbanki útilokar þó ekki 0,75 prósentustiga hækkun.

Gera má ráð fyrir að verðbólga haldist um og yfir 7 prósentum næstu mánuðina.