Vísitala neysluverðs í ágúst 2022 hækkar um 0,29 prósent frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar um 0,04 prósent frá júlí 2022.

Sumarútsölum er að ljúka og hækkaði verð á fötum og skóm um 3,5 prósent (áhrif á vísitöluna 0,11 prósent) og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækkaði um 6,4 prósent (0,14 prósent).

Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 0,9 prósent (0,17 prósent). Verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði um 8,7 prósent (-0,22 prósent) og verð á bensíni og olíum lækkaði um 3,9 prósent (-0,16 prósent).

Samkvæmt Hagstofunni hefur vísitala neysluverðs hækkað um 9,7 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 7,1 prósent síðustu tólf mánuði. Í ljósi þess að hækkun samræmdrar vísitölu neysluverðs hér á landi hefur einungis verið um 5,4 prósent á tímabilinu júní 2021 – júní 2022 virðist þessi tala án húsnæðisverðs mjög há og þarfnast skoðunar

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í ágúst 2022, sem er 555,1 stig, gildir til verðtryggingar í október 2022. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 10.960 stig fyrir október 2022.