Bankinn býst við að vísitala neysluverðs lækki um 0,2 prósent í janúar frá fyrra mánuði. Gangi það eftir eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 5,0 prósent en var 5,1 prósent í desember. Verðbólga muni svo hjaðna jafnt og þétt á þessu ári og vera við 2,5 prósenta markmið Seðlabankans fyrri hluta árs 2023. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs fyrir mánuðinn þann 28. janúar næstkomandi.

Húsnæði vegur sem fyrr þungt í vísitölu neysluverðs.

Útsölur vega á móti krónutöluhækkunum

Í janúar togast að vanda á útsöluáhrif annars vegar og hækkanir á gjaldskrám og opinberum gjöldum hins vegar. Útsöluáhrifin vega þyngra þennan mánuðinn, að mati Íslandsbanka, og það helsta sem vegur til lækkunar vísitölunnar í janúar eru húsgögn og heimilisbúnaður sem lækkar í verði um 3,8 prósent (-0,24 prósent áhrif á vísitöluna) ásamt fatnaði og skóm sem lækka um 6,1 prósent (-0,23 prósenta áhrif á vísitöluna) samkvæmt mælingu bankans.

Liðurinn ferðir og flutningar lækkar einnig um 0,50 prósent (-0,07 prósent áhrif á vísitöluna) milli mánaða en þar vega lækkandi flugflugfargjöld og eldsneytisverð á móti hækkandi verði á bílum. Samkvæmt spá bankans munu flugfargjöld lækka í janúar um 7,15 prósent (-0,11 prósenta áhrif á vísitöluna) þar sem um árstíðarbundna lækkun er að ræða, en liðurinn hækkaði um ríflega 10 prósent í desembermánuði. Eldsneytisverð mun einnig lækka lítillega eða um 0,3 prósent (0,01 prósenta áhrif á vísitöluna), þrátt fyrir hækkun krónutölugjalda um áramótin. Verð á Brent hráolíutunnu lækkaði í desember og miðað við mælingu bankans hefur það skilað sér inn í verðlagið hérlendis. Verðið erlendis hefur þó tekið að hækka á ný og því miklar líkur á hækkun á eldsneytisverði í febrúar. Bílar hækka í verði um 0,6 prósent (0,03 prósenta áhrif) sem aðallega má rekja til minni niðurgreiðslu virðisaukaskatts við kaup á tengiltvinnbílum sem tók gildi nú um áramót.

Áfengi og tóbak hækkar í verði um 2,5 prósent um áramótin vegna hækkunar krónutölugjalda sem hefur 0,07 prósenta áhrif til hækkunar á vísitölunni. Þá hækkar liðurinn matar og drykkjarvörur líkt og undanfarna mánuði um 0,4 prósent (0,06 prósenta áhrif á vísitöluna) ásamt annarri vöru og þjónustu sem hækkar um 0,6 prósent (0,04 prósenta áhrif á vísitöluna), meðal annars vegna verðhækkunar á opinberri þjónustu.

Íbúðaverð hækkar hægar

Á árinu 2021 hækkaði íbúðaverð um 16 ðrósent samkvæmt gögnum Hagstofu. Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði mest í verði eða um 18 prósent, íbúðir á landsbyggðinni hækkuðu um 16,5 prósent og íbúðir á höfuðborgarsvæðinu um 15 prósent.

Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 18 prósent á síðasta ári.

Húsnæðisliðurinn vegur enn þungt til hækkunar í vísitölunni. Í síðasta mánuði hækkaði reiknaða húsaleigan um 0,6 prósent sem er hægari hækkun en verið hefur lengst af á síðasta ári. Íslandsbanki spáir svipuðum hækkunartakti í janúar og telur að reiknaða húsaleigan hækki um 0,7 prósent milli mánaða. Hugsanlega séu hér merki um að farið sé að hægja á hækkunartaktinum á íbúðamarkaðnum. Ýmsir mælikvarðar bendi þó til þess að eftirspurn á íbúðamarkaði sé enn með mesta móti. Framboð íbúða sé lítið, sölutími stuttur og margar íbúðir seljist yfir ásettu verði. Því verði fróðlegt að fylgjast með þróuninni á íbúðamarkaðnum á næstu mánuðum.

Verðbólgan hjaðnar á nýju ári

Bankinn telur að toppi verðbólgunnar kunni að vera náð og fram undan sé hjöðnunarskeið þótt verðbólgan hjaðni hægt í fyrstu. Í bráðabirgðaspá gerir bankinn ráð fyrir 0,6 prósenta hækkun vísitölu neysluverðs í febrúar, 0,5 prósenta hækkun í mars og 0,4 prósenta hækkun í apríl. Gangi sú spá eftir muni verðbólga mælast 4,6 prósent í apríl.

Íslandsbanki telur að verðbólga hjaðni hratt á þessu ári og fram á næsta.

Íslandsbanki reiknar enn með styrkingu krónu á árinu þegar fleiri ferðamenn taki að streyma til landsins. Auk þess eru helstu forsendur spár bankans að íbúðamarkaðurinn róist á árinu með hækkandi vöxtum og auknu framboði ásamt því að kjarasamningar sem losna undir lok ársins verði fremur hóflegir. Einnig gerir bankinn ráð fyrir að framboðshnökrar erlendis frá, sem hafa leitt til aukinnar innfluttrar verðbólgu, muni ná jafnvægi á árinu. Spá bankans hljóðar upp á 4,3 prósenta verðbólgu að meðaltali árið 2022, 2,5 prósent árið 2023 og að jafnaði 2,7 prósent árið 2024. Gangi spá bankans eftir mun verðbólgan ná 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans á fyrri hluta ársins 2023.