Verðbólga í Bretlandi jókst úr 2,1 prósenti í 2,5 prósent í júní sem er mun meiri hækkun á milli mánaða en reiknað var með. Vaxandi verðbólga eykur líkurnar á því að Seðlabanki Englands muni bregðast við hækkandi verðlagi. Verðbólgumarkmið bankans er tvö prósent.

Þetta er þriðji mánuðurinn í röð þar sem verðbólga er meiri en gert var ráð fyrir. Verðbólgan hefur ekki verið meiri í þrjú ár

Hagfræðingur Capital Economist segir við Financial Times að verðbólgan sé meiri en svo að skýra megi hana með því að hagkerfið sé að rétta úr kútnum eftir að hafa legið í dvala vegna Covid-19. Verðbólgan gæti farið í tæp fjögur prósent við lok árs en fari svo hjaðnandi á næsta ári.

Rétt eins og í Bandaríkjunum stuðluðu verðhækkanir á notuðum bílum að aukinni verðbólgu. Neytendur horfa til þess að kaupa notaða bíla í stað nýrra því framleiðsla á bílum hefur ekki haldið í eftirspurn vegna skorts á hálfleiðurum (e. semiconductors). Aðrir þættir sem hafa áhrif eru dýrari matvæli og fatnaður.

Flestir hagfræðingar telja að Seðlabankinn muni grípa í taumana en yfirhagfræðingur Handelsbanken í Bretlandi bendir á að það var rétt í febrúar sem verðbólgan hafi einungis verið 0,4 prósent á ársgrundvelli og mikið rætt um neikvæða raunvexti. Sú umræða sé á bak og burt.

„Að minnsta kosti ætta hefja ferlið við að draga til baka magnbundna íhlutun í haust,“ sagði James Sproule, yfirhagfræðingur Handelsbanken í Bretlandi.