Tólf mánaða verðbólga mælist nú um 3,5% og hefur ekki verið hærri í 16 mánuði eða þegar hún mældist 3,6% í maí í fyrra.

Þetta kemur fram í nýbirtum tölum frá Hagstofu Íslands en verðbólga hefur nú aukist í þremur mælingum í röð. Mældist hún síðast undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans í apríl á þessu ári.

Sé ekki tekið mið af húsnæðiskostnaði reiknast tólf mánaða verðbólga nú 3,9%.

Húsgögn, heimilisbúnaður og tengdar vörur höfðu nú mest áhrif en vörur í þeim flokki hækkuðu um 4,0% frá því í ágúst. Næst á eftir eru bílar sem hækkuðu um 2,3% milli mánaða.