Verð­bólga í janúar mældist 4,3 prósent en verð­bólga hefur ekki mælst hærri síðan í ágúst 2013. Þetta kemur fram í Hag­s­já hag­fræði­deildar Lands­bankans sem birt var fyrr í dag en deildin á von á að verð­bólga hafi náð há­marki í janúar og að fram undan sé hjöðnun hennar.

Að því er kemur fram í Hag­s­jánni lækkaði vísi­tala neyslu­verðs um 0,06 prósent milli mánaða og vísi­tala neyslu­verðs án hús­næðis lækkaði um 0,24 prósent. Þannig mældist verð­bólgan 4,3 prósent, til saman­burðar við 3,6 prósent í desember, og án hús­næðis mældist hún 4,7 prósent.

Verstu janúarútsölur síðan 2002

Helstu á­hrifa­þættir milli mánaða voru að matur og drykkju­vörur hækkuðu meira en von var á, reiknuð húsa­leiga hækkaði, hús­næði án reiknaðrar húsa­leigu hækkaði, og bensín hækkaði. Föt og skór lækkuðu en lækkunin var tölu­vert minni en síðustu ár og hefur ekki verið minni milli mánaða í janúar síðan árið 2002.

„Út­sölu­á­hrifin síðasta sumar voru einnig lítil og má lík­legast rekja þetta til þess að út­sölurnar verða mun minni í sniðum vegna far­sóttarinnar sem hefur leitt til þess að Ís­lendingar kaupa meira af fötum og skóm hér á landi,“ segir í Hag­s­jánni. Sömu sögu var að segja um hús­gögn og heimilis­búnað.

Verðbólgan verði 3,8 prósent í apríl

Gert er ráð fyrir að verð­bólgu­mark­miði verði náð á seinni árs­helmingi þessa árs en þar sem mælingin er nú yfir efri vik­mörkum mark­miðsins, fjögur prósent, þarf Seðla­bankinn að senda ríkis­stjórn greinar­gerð um á­stæður frá­viksins og hvort bankinn telji á­stæðu til að grípa til að­gerða.

Hag­fræði­deild Land­spítalans gerir ráð fyrir að vísi­talan hækki um 0,54 prósent í febrúar, 0,39 prósent í mars, og 0,19 prósent í apríl, en ef það gengur eftir verður verð­bólgan 3,8 prósent í apríl.

Hag­s­já Lands­bankans má nálgast í heild sinni hér en þar er farið yfir helstu á­hrifa­þætti milli mánaða.