Verðbólga í janúar mældist 4,3 prósent en verðbólga hefur ekki mælst hærri síðan í ágúst 2013. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans sem birt var fyrr í dag en deildin á von á að verðbólga hafi náð hámarki í janúar og að fram undan sé hjöðnun hennar.
Að því er kemur fram í Hagsjánni lækkaði vísitala neysluverðs um 0,06 prósent milli mánaða og vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,24 prósent. Þannig mældist verðbólgan 4,3 prósent, til samanburðar við 3,6 prósent í desember, og án húsnæðis mældist hún 4,7 prósent.
Verstu janúarútsölur síðan 2002
Helstu áhrifaþættir milli mánaða voru að matur og drykkjuvörur hækkuðu meira en von var á, reiknuð húsaleiga hækkaði, húsnæði án reiknaðrar húsaleigu hækkaði, og bensín hækkaði. Föt og skór lækkuðu en lækkunin var töluvert minni en síðustu ár og hefur ekki verið minni milli mánaða í janúar síðan árið 2002.
„Útsöluáhrifin síðasta sumar voru einnig lítil og má líklegast rekja þetta til þess að útsölurnar verða mun minni í sniðum vegna farsóttarinnar sem hefur leitt til þess að Íslendingar kaupa meira af fötum og skóm hér á landi,“ segir í Hagsjánni. Sömu sögu var að segja um húsgögn og heimilisbúnað.
Verðbólgan verði 3,8 prósent í apríl
Gert er ráð fyrir að verðbólgumarkmiði verði náð á seinni árshelmingi þessa árs en þar sem mælingin er nú yfir efri vikmörkum markmiðsins, fjögur prósent, þarf Seðlabankinn að senda ríkisstjórn greinargerð um ástæður fráviksins og hvort bankinn telji ástæðu til að grípa til aðgerða.
Hagfræðideild Landspítalans gerir ráð fyrir að vísitalan hækki um 0,54 prósent í febrúar, 0,39 prósent í mars, og 0,19 prósent í apríl, en ef það gengur eftir verður verðbólgan 3,8 prósent í apríl.
Hagsjá Landsbankans má nálgast í heild sinni hér en þar er farið yfir helstu áhrifaþætti milli mánaða.