Verðbólga á síðustu tólf mánuðum mælist nú 3,6% og var síðast jafnhá í maí í fyrra.

Þetta kemur fram í nýbirtum tölum frá Hagstofu Íslands en verðbólga hefur nú aukist í fjórum mælingum í röð. Mældist hún síðast undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans í apríl á þessu ári.

Sé ekki tekið mið af húsnæðiskostnaði reiknast tólf mánaða verðbólga nú 4,1%.

Að sögn Hagstofunnar hækkaði verð á mat og drykkjavörum um 1,0% frá fyrri mánuði (áhrif á vísitöluna 0,15%) og kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) um 0,6% (0,09%).

Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í október 2020, hækkar um 0,43% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar um 0,43% frá september 2020.

Fréttin hefur verið uppfærð.