Verð á ETS-einingum náði 41 evru á tonnið í gær og hefur hækkað um meira en 50 prósent á síðastliðnum sex mánuðum.

Evrópusambandið hefur um þessar mundir í bígerð að draga enn meir úr losun koltvísýrings fyrir árið 2030 en áður var ráðgert sem talið er styðja við verð mengunarkvóta. Bloomberg greinir frá.

Áhugi á stöðutöku í ETS-einingum hefur því aukist á fjármálamörkuðum, sem talin er ein ástæða hækkunar síðustu mánaða. Dan Jorgensen, umhverfisráðherra Danmerkur, sagði í vikunni að kanna þyrfti samspil fjármálamarkaða og ETS-eininga og hvaða áhrif fjármálamarkaðir hefðu á ETS-kerfið.

Hröð verðhækkun ETS-eininga hefur nú vakið upp umræðu um hvort hækkunin geri mengandi iðnað innan Evrópusambandsins ósamkeppnishæfan.

Markmið ETS-kerfisins sé að búa til að hvata til að draga úr mengun, fremur en að hrekja iðnað til landa þar sem ekki eru jafnstífar reglur um mengun og umhverfismál eru aftarlega á merinni. Er þetta kallað kolefnisleki.

Til að bregðast við kolefnisleka er nú til skoðunar innan Evrópusambandsins að setja kolefnistolla á hrávörur sem framleiddar eru með óumhverfisvænum orkugjöfum (e. carbon border adjustment mechanism).

Einstök ríki í Evrópu hafa brugðist við hækkandi verði ETS-eininga með að endurgreiða þær til mengandi iðnaðs sem nýtir þó umhverfisvæna orku til framleiðslu sinnar.

Til að mynda greiðir norska ríkið stóran hluta ETS-kostnaðar þar í landi til baka til álframleiðenda.