Kostnaður við kolefnislosun hefur aldrei verið hærri í Evrópu, en verðið á svokölluðum ETS-einingum skreið yfir 50 evrur í fyrsta skipti í dag. Verð ETS-eininga hefur hækkað um 50 prósent frá byrjun árs.

Markmið Evrópusambandsins um lækkandi heildarlosun aðildarríkja fram til ársins 2050, þegar nettólosun kolefnis á að vera á sléttu samkvæmt markmiðum, hefur orsakað mikla verðhækkun eininganna. ETS-kerfinu er ætlað að hvetja iðnað og raforkuframleiðendur til að færa sig yfir í sjálfbærar og minna mengandi tækni til sinnar framleiðslu.

ETS-kerfinu var komið á koppinn árið 2005, en þátttakendur á markaðnum með einingarnar eru orkuframleiðendur, flugfélög og iðnaðarfyrirtæki af ýmsu tagi.

Ekki eru nema 10 mánuðir síðan ETS-einingar fóru í fyrsta sinn yfir 30 evrur fyrir tonnið af ígildi koltvísýrings, en það var á þeim tíma hæsta verðið í 14 ár.