„Lendi Ísland á gráa listanum getur það mögulega gerst í einhverjum tilvikum að það verði tafir á greiðslum. Ef þetta fer á versta veg trúum við því að samstarfsaðilar okkar taki á þessu af skynsemi,“ er haft eftir Viðari Þorkelssyni, forstjóra Valitors, í Morgunblaðinu.

Fulltrúa allra aðildaríkja FATF funda nú um hvort Íslandi fari á gráan lista samtakanna. Má vænta niðurstöðu í málinu í dag. Fréttablaðið greindi frá því fyrr í vikunni að Ísland nyti fulls stuðnings Evrópusambandsins á fundinum og flestra ríkja þess. Bandaríkin og Bretland væru hins vegar í hópi þjóða sem vilja að Ísland verði sett á listann.

„Ég trúi því að stjórnvöld séu búin að ganga það langt í þessu og að sú vinna sem eftir er taki ekki langan tíma. Þannig að ef við lendum á listanum þá verðum við ekki lengi á honum,“ segir Viðar enn fremur.

Þá er haft eftir Sæmundi Sæmundssyni, forstjóra Borgunar, að hann hafi mestar áhyggjur af nýjum og minni fyrirtækjum sem þurfa að koma sér upp banka­sam­skipt­um er­lend­is.

„Ég hef mest­ar áhyggj­ur af nýj­um og minni aðilum sem þurfa að koma sér upp banka­sam­skipt­um er­lend­is. Til „skemmri tíma“ er þetta kannski minna mál fyr­ir okk­ur sem höf­um átt ára­tuga sam­skipti við er­lenda banka,“ segir Sæmundur í samtali við Morgunblaðið.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær að hennar skoðun væri sú að Ísland ætti ekki heima á listanum.

„Hverjir trúa því að við eigum margt sameiginlegt með þeim löndum sem eru á listanum?“ spurði Þórdís en á listanum má finna lönd á borð við Írak, Afganistan, Jemen og Úganda.

Tveir sérfræðingar í vörnum gegn peningaþvætti sögðu í samtalið við Fréttablaðið fyrr í vikunni að orðspor landsins gæti beðið hnekki ef stjórnvöld myndu ekki bregðast með skjótum hætti við því að Ísland lendi á gráa listanum. Vera Íslands á listanum gæti torveldað einstaklingum og fyrirtækjum að stofna til nýrra viðskipta hjá erlendum fjármálastofnunum.