Heildarvelta Lyfju var 12,2 milljarðar á síðasta ári og jókst um 15 prósent frá síðasta ári. Hagnaður af rekstri Lyfju var 438 milljónir og framlegð var um 33 prósent, en þetta kemur fram í fréttatilkynningu vegna afkomu Lyfju á síðasta ári.

Í tillkynningunni kemur fram að álagning hafi farið lækkandi á síðasta ári, bæði vegna aukinnar samkeppni en líka vegna ákvarðana Lyfjaafgreiðslunefndar.

Lyfja rekur lyfjaverslanir, heilsuvöruverslanir undir merkjum Heilsuhússins og heildsölu sem sérhæfir sig í innflutningi á heilsuvörum. Alls starfa tæplega 350 starfsmenn hjá Lyfju samstæðunni í um 240 stöðugildum þar sem um 83 prósent starfsmanna eru konur.

„Heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á rekstur Lyfju á árinu, áhersla var lögð á forvarnir, fræðslu, breytingu á vaktafyrirkomulagi, skipulagi í verslunum og þjónustu við viðskiptavini með það að marki að auka öryggi og draga úr áhættu. Á sama tíma urðu miklar breytingar á neysluhegðun og náði starfsfólk samstæðunnar að bregðast við öllum þeim breytingum og tryggja viðskiptavinum mikilvægar vörur í baráttu við veiruna. Beinn launakostnaður og starfsmanntengdur kostnaður vegna COVID-19 nam alls 50 milljónum króna á árinu. Innleiðing nýrrar stefnu Lyfju hófst af fullum krafti á árinu 2020 með umbreytingu verslana, kaupum á rekstri apóteka, opnun nýrra apóteka, markaðsfærslu Lyfju appsins og umbreytingu á vöruvali. Lyfja fjárfesti fyrir alls 412 milljónir króna á árinu 2020,“ segir í tilkynningunni.