Velta viðskiptahagkerfisins samkvæmt virðisaukaskattskýrslum dróst saman um 2 prósent á fyrstu tveimur mánuðum ársins, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Mestur er samdráttur í ferðatengdum greinum, en aðrar útflutningsgreinar sóttu í sig veðrið.

Velta vegna reksturs gististaða dróst saman um 73 prósent og var tveir milljarðar. Veitingasala og þjónusta dróst saman um fjórðung og var alls 10 milljarðar. Velta í flokknum flutningar og geymsla dróst saman um tæplega tvo fimmtu og nam 34 milljörðum á tímabilinu janúar til febrúar.

Velta tengd fiskveiði, fiskeldi og vinnslu sjávarafurða jókst um 18 prósent á fyrstu tveimur mánuðum ársins og var 72 milljarðar. Framleiðsla málma, en þar er meðal annars vísað til álframleiðslu, jókst um 14 prósent og var 42 milljarðar á fyrstu tveimur mánuðum ársins.