Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka segir að vel heppnað útboð bankans í sumar og skráning hans á markað standi upp úr.

Hvað var krefjandi á árinu sem er að líða?

„Starfið er alltaf krefjandi, annars væri ekki gaman að því, en vissulega hefur það reynst sérstaklega krefjandi hve lengi faraldurinn hefur staðið. Fáir hefðu væntanlega þorað að spá því þegar hann hófst í ársbyrjun 2020 að við værum nú enn að glíma við takmarkanir.Ein okkar helsta áskorun þetta árið hefur verið að styðja eins vel og mögulegt er við bakið á þeim sem orðið hafa fyrir áhrifum veirunnar og aðgerðum henni tengdum en taka á sama tíma virkan þátt í spennandi tækifærum með viðskiptavinum okkar. Breytingar á þróun faraldursins hafa gert mörgum erfitt að vinna áætlanir og skyggnast fram í tímann. Stundum virðist heilmikið tilefni til bjartsýni og okkur þykir sjá fyrir endann á faraldrinum en því miður hefur það oft reynst skammlíft, þó þetta þokist nú alltaf í rétta átt.Ég ætla mér nú ekki að verða vön þessari leiðindaveiru en við höfum þó lært heilmikið á viðbrögðum við henni og tekist að leysa vel úr flestum þeim áskorunum sem henni hafa fylgt.“

Hvað gekk vel á árinu 2021?

„Ég hugsa að afar vel heppnað útboð bankans í sumar og skráning hans á markað standi upp úr. Í hluthafahópinn bættust yfir 20.000 manns og augljós áhuginn gladdi okkur mjög. Allt ferlið gekk ljómandi vel og hefur lífið sem skráður banki verið ánægjulegt.Þá hefur mér þótt hreint magnað að fylgjast með þrautseigju viðskiptavina okkar í gegnum þessa tíma. Með aðlögunarhæfni og jákvæðni að vopni hefur fólk jafnvel gert skjótar og stærðarinnar breytingar á sínum rekstri til að laga sig að nýjum tímum. Dæmi um slíkt erum við sjálf. Við þurftum að ráðast í mjög umfangsmiklar breytingar á þjónustuleiðum okkar og tókum stór stafræn skref inn í framtíðina sem mörg hafa reynst afar vel og við munum koma til með þróa enn frekar á næstunni.“

Hvernig horfir árið 2022 við þér í rekstrinum?

„Næsta ár leggst vel í mig. Á þeim erfiðu tímum sem við erum nú hægt og rólega að sigla út úr höfum við aldrei misst sjónar á þeim tækifærum sem fram undan eru. Við sjáum fram á enn frekari þróun stafrænna lausna og þjónustu við viðskiptavini og hafa frábærar viðtökur græns vöruframboðs okkar hvatt okkur til að gera enn betur í þeim efnum. Við lifum geysilega áhugaverða tíma hvað þróun á bankaþjónustu varðar og Íslandsbanki er vel búinn til að vera leiðandi þeim breytingum.“