Einn vinsælasti veitingastaður landsins, sem staðsettur er í IKEA, opnar á ný klukkan ellefu á morgun eftir tæplega fimm mánaða lokun.

„Við erum að vinna hörðum höndum hér á annarri hæð í þessum töluðu orðum til að koma veitingastaðnum aftur í stand til að getað tekið á móti gestum strax á morgun. Við vorum byrjuð að undirbúa okkur en vorum að bíða eftir því hvernig tilslakanir á samkomutakmörkunum yrðu," segir Guðný Camilla Aradóttir, yfirmaður samfélagsábyrgðar og samskiptadeildar IKEA í samtali við Fréttablaðið.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, samþykkti tillögur sóttvarnalæknis á ríkisstjórnarfundi í hádeginu. Allt að 50 manns mega koma saman samkvæmt nýju reglugerðinni en nýjar reglur taka gildi strax á morgun og gilda í þrjár vikur með fyrirvara.

Guðný Camilla segir að þetta séu gleðitíðindi fyrir IKEA. Verslunin var opnuð á ný þann 10. desember síðstliðinn eftir fimm vikna lokun en veitingastaðurinn hefur ekki verið opinn frá því í október.

„Það er bara frábært að geta opnað aftur eftir þessa löngu lokun," segir Guðný Camilla.